fbpx
Þriðjudagur, september 10, 2024
HeimFréttirJapanski sendiherrann og fylgdarlið heimsótti leikskólann Hjalla

Japanski sendiherrann og fylgdarlið heimsótti leikskólann Hjalla

Megumi Nishida, leikskólastarfsmaður á Hjalla, varði doktorsritgerð í menntavísindum

Á leikskólanum Hjalla starfar japönsk kona, Megumi Nishida (西田めぐみ).

Hún hefur starfað á Hjalla síðan 2014 og hefur samhliða náminu unnið að doktorsritgerð í Háskóla Íslands í menntavísindum og varði hún doktorsritgerð sína í desember sl. með glæsibrag. Var heiti ritgerðar hennar: „Að verða blendingskennari í alþjóðlegu samhengi: Starfstengd sjálfsrýni til valdeflingar“.

Megumi Nishida

Margir japanskir gestir hafa komið á Hjalla vegna Megumi enda einstakt að hafa japönskumælandi kennara í teyminu. Hefur verið mikill áhugi fólks, víðs vegar að úr heiminum, á Hjallastefnuninni og er tekið á móti fjölda gesta frá öllum heimshornum á ári hverju.

Mikill áhugi er á vinnu Íslands í jafnréttismálum í Japan og forsvarsmenn Hjallastefnunnar fengu beiðni um að sendinefnd fengi að skoða og kynna sér Hjallastefnuna þar sem Hjallastefnan væri framarlega í jafnréttisvinnu í skólastarfi.

Sendinefnd í heimsókn á Hjalla

Sendinefnd þessi heimsótti Hjalla í gær en sendinefndin er frá Miyazaki héraði í Japan, sem er á Kyushu eyju. Með í för var háskólaprófessor frá Miyazaki University og fulltrúar frá bæði sveitarfélaginu og fyrirtækjum á svæðinu.

Var fulltrúum frá japanska sendiráðinu á Íslandi boðið í heimsókn á Hjalla, til þess að hitta fyrir sendinefndina og heyra af rannsóknum Megumi sem tengjast upplifun hennar af japanskri arfleifð sinni og kennslu í Japan samanborið við upplifun hennar af kennslu hér á landi hjá Hjallastefnunni.

Japanski sendiherrann, Suzuki Ryotaro, var með í för og var þessi heimsókn í alla staði stórmerkileg og gefandi að mati skólastjórnenda á Hjalla.

Bóas Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar.

Eftir að Bóas Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar bauð gesti velkomna og kynnti starfsemi Hjallastefnunnar bauð hann Megumi að segja frá upplifun sinni og doktorsritgerð.

Var máli hennar sýndur mikill áhugi og fékk hún fjölda spurninga en þessi hluti fór fram á japönsku en skv. upplýsingum frá túlki Japananna var sérstaklega mikill áhugi á frjálsræði sem börnum var gefið og vali en einnig voru vangaveltur um jafnrétti í leikskólastarfi, lýðræðisleg vinnubrögð, kærleika og virðingu í samskiptum.

Suzuki Ryotoro sendiherra Japans og Bóas framkvæmdastjóri spjalla við dreng.

Börnin á Hjalla sýndu gestunum mikinn áhuga og tóku svo fallega á móti þeim með söng, listaverkum og sinni alkunnu gleði.

Hluti sendinefndarinnar ásamt fulltrúum Hjalla við myndir af japanska fánanum sem börnin gerðu.
Bóas Hallgrímsson framkvæmdastjóri, Suzuki Ryotoro sendiherra, Margrét Sigurðardóttir aðstoðarskólastýra og Ásdís Eydal skólastýra.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2