fbpx
Laugardagur, júlí 13, 2024
HeimFréttirAtvinnulífHafnarfjarðarhöfn skilaði 282 milljón kr. í hagnað

Hafnarfjarðarhöfn skilaði 282 milljón kr. í hagnað

Rekstur mjög góður en blikur á lofti

Skv. ný framlögðum ársreikningi Hafnarfjarðarhafnar skilaði rekstur hafnarinnar 282 milljón kr. í hagnað og eru rekstrartölur hafnarinnar mjög svipaðar og árið 2018.

Heildartekjur hafnarinnar eru 711,3 milljónir kr. og hafa hækkað um 3% frá 2018. Eru almenn hafnargjöld 473,6 milljónir kr. af því og lóðarleigutekjur 79,7 millj. kr.

Launakostnaður er hæsti útgjaldaliðurinn, 172,4 milljónir kr. og hefur lækkað um 42 milljónir kr. en þar munar um að áfallið orlof var neikvætt um 21 millj. kr. á meðan það var jákvætt 2018 um 20 millj. kr.

Útgjöld vegna launa 5 hafnarstjórnarmanna er 8,3 millj. kr. sem gerir að meðaltali tæpar 1,7 milljón kr. á hvern stjórnarmann á ári en launakostnaður stjórnar er 2,5% af heildarútgjöldum hafnarinnar.

Afskriftir eru 96,7 milljónir kr. og eru 63% hærri en 2018 og 45% umfram áætlun. Þær verða til þess að þrátt fyrir hærri tekjur og lægri gjöld verður hagnaður ársins fyrir fjármagnsliði lægri en 2018 og nemur 276,7 milljónum kr. Fjármagnsliðirnir eru hins vegar höfninni hagstæðir því vaxtatekjur hækka úr 15,8 í 19 milljónir kr. og vaxtagjöld lækka úr 25,4 milljónir kr. í 13,6 milljónir kr. Hagnaður hafnarinnar eftir fjármagnsliði eru því 281, 9 milljónir kr.

Kaupir þjónustu af Hafnarfjarðarbæ

Hafnarfjarðarhöfn kaupir þjónustu af Hafnarfjarðarbæ fyrir 18 milljónir kr. á árinu auk þess að eiga 69,3 milljón kr. kröfu á sveitarfélagið. Sú krafa var mun hærra í lok árs 2018 er Hafnarfjarðarbær skuldaði höfninni 238,69 milljónir kr.

Hátt eiginfjárhlutfall

Eiginfjárhlutfall hafnarinnar var í árslok 2019 85,5% og hafði hækkað úr 68,3% í árslok 2015. Þá hefur veltufjárhlutfall hækkað á sama tíma úr 1,9 í 7,1.

Rekstur hafnarinnar hefur einnig batnað sl. 5 ár en hagnaður var 63,4 milljónir kr. í árslok 2015 en er nú 281,9 milljónir kr. nú.

Eignir hafa hækkað lítillega í verðgildi og eru nú um 3,4 milljarðar kr. Verðgildi fastafjármuna hefur lækkað síðustu 5 ár en veltufjármunir hafa aukist úr 173 milljónum í 755 milljónir kr.

Skuldir Hafnarfjarðarhafnar hafa markvisst verið lækkaðar undanfarin ár en langtímaskuldir eru 390 millj. kr. en voru 871 milljón kr. fyrir fimm árum.

Blikur á lofti

Lúðvík Geirsson hafnarstjóri sagði rekstur hafnarinnar hafi gengið vel en ýmsar blikur séu á lofti. Breytingar á rekstri í Straumsvík geti haft áhrif á afkomu hafnarinnar sem og fækkun skemmtiferðaskipa þó svo þau hafi ekki verið eins stór hluti af rekstri hafnarinnar og víða annars staðar. Þá geti áhrif COVID-19 haft áhrif þó sé enn óljóst hversu mikil þau geta orðið.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2