fbpx
Sunnudagur, desember 3, 2023
HeimFréttirFékk FH knatthús ehf 138,8 millj. kr. of mikið í leigu?

Fékk FH knatthús ehf 138,8 millj. kr. of mikið í leigu?

Greitt til FH knatthúss ehf. þótt samningur hafi verið við Fimleikafélag Hafnarfjarðar

Í minnisblaði sem bæjarstjórinn í Hafnarfirði hefur lagt fyrir bæjarráð kemur fram að Hafnarfjarðarbær hefur á árunum 2007-2015 greitt 207,2 milljónir kr. á verðlagi hvers árs til Knatthúsa FH ehf. vegna leigu á Risanum. Er það 138,8 millj. kr. hærri upphæð en áætlaður rekstrarkostnaður áranna 2007-2015  en ekki liggja fyrir sundurliðaðar rekstrartölur vegna reksturs knatthússins.

Í samningi milli ÍBH og Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 21. febrúar 2008 segir eftirfarandi í 3. grein: „Hafnarfjarðarbær mun leigja ÍBH tíma í íþróttahúsum/mannvirkjum sínum fyrir sem næst sannvirði rekstrarkostnaðar (stofn- og vaxtakostnaður ekki reiknaður með). Reiknað er með því að íþróttahúsnæði/mannvirki í eigu íþróttafélaga fái hliðstæð leigugjöld og íþróttahús í eigu bæjarins (tillit skal þó tekið til fjármagnskostnaðar viðkomandi íþróttafélags við byggingu mannvirkisins).“

Samningur ekki samþykktur á lögformlegan hátt

Hins vegar hafði Hafnarfjarðarkaupstaður árið 2007 gert viðaukasamning við FH um leigutíma í „Risanum“. Samningur kvað á um að greiða skuli á ári 17,4 milljónir kr. sem í dag samsvara 28 milljónum kr. Samningur var samþykktur í íþrótta- og tómstundanefnd en hvorki í fjölskylduráði né bæjarstjórn. En þar sem gert var ráð fyrir greiðslunum í fjárhagsáætlunum hvers árs var heimilt að greiða þessa leigu. Greiðslu vegna leigu á tímum í Risa hefur til þessa verið ráðstafað til FH Knatthúsa ehf. Það var hins vegar ekki heimilt þar sem viðaukasamningurinn var við Fimleikafélag FH. Þetta kemur fram í svari frá Hafnarfjarðarbæ.

Viðar Halldórsson formaður FH fullyrðir að samningurinn sé í fullu gildi og hafi bæði fjölskylduráð og bæjarstjórn samþykkt samninginn með samþykkt fundargerðar íþrótta- og tómstundaráðs. Það sé í fullu samræmi við sveitarstjórnarlög. Í þágildandi sveitarstjórnarlögum segir hins vegar í 49. grein: „Ef ályktanir eða tillögur þarfnast staðfestingar byggðarráðs og/eða sveitarstjórnar ber að taka þær sérstaklega fyrir“.

Í hvað fóru greiðslurnar?

Í minnisblaðinu segir bæjarstjóri að væntanlega hafi þessi mismunur farið í að greiða vexti og afborganir af lánum sem tekin hafa verið vegna Risans og nú Dvergs.

Endurskoðandi bæjarins hefur framreiknað bókfærðan byggingarkostnað, skv. ársreikningum, vegna Risans og Dvergs til dagsins í dag. Skv. því er kostnaðurinn samtals 390.886 þús. kr. Eftirstöðvar áhvílandi lána hjá FH Knatthúsa ehf. vegna Risans og Dvergs eru miðað við 11. október 2016:  211.976 þús. kr.

Í útreikningi á minnisblaðinu kemur fram að afgangur, uppreiknaður miðað við byggingavísitölu, sé 69,3 milljónir kr. þegar tillit hafi verið tekið til áætlaðs vaxtakostnaðar. Samskiptastjóri bæjarins neitar hins vegar að upplýsa hver skilgreining sé á þessum afgangi og vísar í að FH og Hafnarfjarðarbær eigi í samningaviðræðum. Hann hefur þó upplýst að bæjarstjóri muni svar á morgun, fimmtudag. Má þó gera ráð fyrir að þetta sé sú raun upphæð sem Hafnarfjarðarbær telur sig hafa ofgreitt og geti nýst við kaup á eignarhlut í knatthúsunum.

Bærinn vill eignast hluti í knatthúsunum

Bæjarstjóri og formaður stjórnar Landsbankans sem styrkti byggingu Risans með auglýsingasamningi.
Bæjarstjóri og formaður stjórnar Landsbankans sem styrkti byggingu Risans með auglýsingasamningi.

Í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta til bæjarstjóra kemur fram að með nýju samkomulagi verði hætt að greiða FH skv. [núgildandi] samningi. „Núverandi samningur stenst ekki þann samning sem gerður var við ÍBH um leigugreiðslur af húsnæði sem íþróttafélögin eiga og með slíkum samningi er verið að mismuna félögum. Framkvæmd færir alla gildandi samninga upp á borð og bærinn eignast með réttu þann hlut sem hann greiðir fyrir. Ákvæðið hefur það gildi að báðir aðilar málsins vilja sjálfviljugir vinna eftir því sem er nýjast í samningum og unnið er eftir annarsstaðar milli Hafnarfjarðarbæjar og íþróttahreyfingarinnar.“

Viðar Halldórsson segir að byggingarkostnaður Dvergsins sé um 150 milljónir kr. og bærinn hafi ekkert greitt til hans, hvorki stofnframlag né leigu og ekki hafi verið farið fram á það. Framreiknaður byggingarkostnaður Risans sé um 270 milljónir þegar tillit hafi verið tekið til gjafavinnu sem ekki var bókfærð sem stofnkostnaður.

Frumkvæði að kaup á hlut í knatthúsunum segir Viðar alfarið hafa komið frá Hafnarfjarðarbæ og verðmiðinn sé 400 milljónir kr. Segir hann ekki inni í myndinni að þessar 69,3 milljónir geti nýst sem greiðsla bæjarins. Greitt hafi verið skv. gildandi samningi sem gildi til 2022.

Ekki kemur fram í minnisblaðinu hvers vegna Hafnarfjarðarbær vill eignast hlut í knatthúsunum.

Ummæli

Ummæli

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjustu greinar

H2