Endurbótum á gamla Sólvangi lýkur á þessu ári

Hjúkrunarheimili, hvíldarinnlögn og dagdvöl

Nýi og gamli Sólvangur

Hjúkrunarheimilið Sólvangur var stækkað með nýbyggingu sem tekin var í notkun um mitt árið 2017. Þá var hjúkrunarrýmum í gamla Sólvangi lokað og ný glæsileg 60 einstaklingsrými tekin í notkun í nýbyggingunni.

Nýja byggingin er talin vel heppnuð með sjúkraþjálfun á jarðhæð og millibyggingu sem tengir allar hæðir við eldri byggingu. Við það myndast gott flæði milli bygginga sem auðveldar alla framtíðarstarfsemi.

Á jarðhæð eldra hússins, sem að mestu er búið að endurnýja, er eldhús og matsalur og dagdvöl fyrir eldri borgara og fólk með heilabilun og er hún nú þegar í fullum rekstri.

Nú er í gangi útboð á endurbótum 2. til 4. hæðar eldra húss Sólvangs.  Verklok er í lok ársins þannig að ef allt gengur upp þá verður húsið komið í fulla nýtingu á þessu ári.

Í útboðinu, sem opnað verður 16. mars, er óskað eftir tilboðum í innréttingu á nýju 11 íbúða hjúkrunarheimili á 2. hæð, innréttingu á aðstöðu fyrir hvíldarinnlagnir á 3. og 4. hæð ásamt breytingu á innra skipulagi og endurnýjun búnaðar.

Alls er hver hæð um 650 m² fyrir utan stigahúss en í tilboðinu er m.a. gert ráð fyrir yfirbyggingu á 6 svölun og byggingu á einum til viðbótar.

Lokahnykkur á vinnu sem hófst árið 2014

Helga Ingólfsdóttir

„Þessar endurbætur eru lokahnykkur á vinnu sem hófst árið 2014 með stofnun starfshóps um uppbyggingu á Sólvangi,“ að sögn Helgu Ingólfsdóttur, bæjarfulltrúa og formanns starfshópsins, í samtali við Fjarðarfréttir.

„Á annarri hæð eldra húss verður ellefu rýma hjúkrunarheimili og á þriðju og fjórðu hæð verður í boði hvíldarinnlögn með nýju sniði þar sem áhersla verður lögð á að bjóða upp á þjálfun og hæfingu til að styðja við sjálfstæða búsetu,“ segir Helga og segir hvíldarinnlögnin því geta nýst yngra fólki líka sem t.d. eru að jafna sig eftir aðgerð.

39 skammtímarými

„Á þriðju og fjórðu hæð verður síðan boðið upp á nýtt úrræði fyrir eldri borgara sem eru  39 skammtímarými og hafa það að leiðarljósi að mæta þörfum eldri borgara sem enn búa sjálfstætt til þess að gera þeim kleift, með viðeigandi þjálfun, að bæta lífsgæði sín með reglubundinni einstaklingsmiðaðri þjálfun með heildstæðu mati. Unnið verður í samræmi við alþjóðleg viðmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í þessu skyni.  Um er að ræða viðbót við aðra þjónustuflokka sem eldri borgurum býðst og einstaklega ánægjulegt að ráðuneytið skuli velja Sólvang sem vettvang fyrir þessa þjónustu og til marks um það traust sem hún sýnir starfseminni á Sólvangi,“ segir Helga.

Í desember sl. samþykkti heilbrigðisráðuneytið að leggja 120 milljónir kr. til stofnkostnaðar á þróunarverkefni í þágu aldraðra í gamla Sólvangi en í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir yfirstandandi ár var gert ráð fyrir 250 milljón kr. í endurbætur á húsnæðinu.

Sólvangur

„Það er einstaklega ánægjulegt að sjá nú fyrir endann á þessu skemmtilega verkefni að uppfæra Sólvang til nútímans með bættri aðstöðu fyrir íbúa og aðra sem nýta sér þá þjónustu sem þar er í boði. Sólvangur mun þannig áfram um langa framtíð halda áfram að þjóna Hafnfirðingum á efri árum og það er einmitt það sem bæjarbúar vilja,“ segir Helga sem segir Sólvang áfram verða í fullri eigu Hafnfirðinga sem leggja ríkinu til húsnæði fyrir fjölbreytta þjónustu fyrir eldri borgara. Bendir hún sérstaklega á, í ljósi mikilla umræðna um aukinn kostnað við rekstur hjúkrunarheimila, að ríkissjóður sjái alfarið um allan rekstrarkostnað eins og eðlilegt sé.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here