fbpx
Föstudagur, febrúar 23, 2024
HeimFréttirBjörgunarsveit Hafnarfjarðar fagnaði 20 ára afmæli sínu – MYNDASYRPA

Björgunarsveit Hafnarfjarðar fagnaði 20 ára afmæli sínu – MYNDASYRPA

Skátafélagið Hraunbúar færði sveitinni 200 þús. kr. gjöf til tækjakaupa

Björgunarsveit Hafnarfjarðar fagnaði 20 ára afmæli sínu í gær, 26. febrúar en sveitin varð til þennan dag árið 2000 við sameiningu Hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði og Björgunarsveitarinnar Fiskakletts.

Björgunarsveitin Fiskaklettur var hluti af Slysavarnafélagi Íslands og var sveitin stofnuð 16. desember 1928. Hjálparsveit skáta var stofnuð 19. febrúar 1951 en hún á rætur sínar í Skátafélaginu Hraunbúum og kallaðist upphaflega Hjálpar- og róverflokkur skáta í Hafnarfirði.

Björgunarsveitin Fiskaklettur sérhæfði sig lengst af við björgun úr sjávarháska á meðan Hjálparsveit skáta sérhæfði sig í björgun á landi. Sveitirnar voru sameinaðar eftir sameiningu Landsbjargar, sem varð til við sameiningu Landssambands Hjálparsveitar skáta og Flugbjörgunarsveitanna, og Slysavarnafélags Íslands og mynda nú hin öflugu björgunarsamtök, Slysavarnafélagið Landsbjörg.

Afmælisveisla og ávarp

Fjölmennt var í björgunarmiðstöðinni Kletti í gærkvöldi, á afmælisdaginn, og var að sjálfsögðu boðið upp á afmæliskökur en finna mátti kökur með merkjum beggja gömlu sveitanna sem mynduð Björgunarsveit Hafnarfjarðar og köku með merki hinnar 20 ára gömlu sveitar.

Gísli J. Johnsen, formaður Björgunarsveitar Hafnarfjarðar setti hátíðina og las kveðju frá forseta Íslands sem því miður gat ekki verið viðstaddur afmælið.

Gísli sagði í ræðu sinni að hann hafi verið stoltur félagi frá upphafi, eins og svo margir, en var óvirkur í mörg ár, eins og svo margir en sagði menn hætti ekki svo glatt að vera björgunarsveitarmaður. Gísli hefur verið formaður frá 2016.

Gísli J. Johnsen, formaður Björgunarsveitar Hafnarfjarðar

„Ég man svo vel eftir því þegar skátahópurinn sem ég var í sem unglingur gat ekki beðið eftir að komast í nýliðaþjálfun hjá Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði og takast á við þær áskoranir sem björgunarsveitarstarf býður upp á. Það var reyndar þannig að við vorum fjögur í hópnum sem vorum árinu yngri og áttum því ekki að fara í nýliðaþjálfunina fyrr en ári síðar. En það voru sterk öfl innan HSH sem börðust fyrir því að allur hópurinn, sem var gríðarlega sterkur og samheldinn, var tekinn inn í nýliðana í einu og leyfi ég mér að fullyrða það að enginn sá eftir því, svo sterkur var þessi hópur að ennþá í dag erum við í góðu sambandi og hittumst flest reglulega.

Hvers vegna nefni ég Hjálparsveitina? Á ekki Björgunarsveit Hafnarfjarðar afmæli?

Það er bara ekki hægt annað en að segja frá rótinni sem varð til þess að þessi stóra og sterka sveit varð til, en 26. febrúar árið 2000 var hún formlega stofnuð eftir sameiningu Björgunarsveitarinnar Fiskakletts og Hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði, sem hvor um sig hafði sína sérstöðu. Við sameiningu varð til sveit með langa og farsæla sögu björgunarstarfa í Hafnarfirði og víðar og er styrkur okkar fólginn í fjölbreytileika félaganna og sérfræðiþekkingu á vel flestum sviðum björgunar á Íslandi og víðar. Það er ekki hægt að tala um fortíðina án þess að minnast á sporhunda en Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði var brautryðjandi á Íslandi í þjálfun og leit með sporhundum og farsællega hélt sú vegferð áfram í Björgunarsveit Hafnarfjarðar.

Það er ekki átakalaust að sameina sveitir og er Björgunarsveit Hafnarfjarðar enginn undantekning. Eflaust voru þeir ófáir hitafundirnir haldnir á fyrstu árum nýstofnaðs félags en í dag starfa félagar sem ein heild undir merkjum sveitarinnar og eru stoltir af.

Við þetta má bæta að sífellt fleiri eldri félagar eru að koma til baka í starfið og fögnum við því að sjálfsögðu, við höfum alltaf pláss fyrir meiri virkni og reynslu.

Eitt af því fyrsta sem farið var af stað með var að tryggja nýrri sveit húsnæði og fékkst vilyrði fyrir lóð og lagt var af stað með hönnun á nýrri björgunarmiðstöð. Þegar að framkvæmdum var komið lögðu margir félagar mikla sjálfboðavinnu af mörkum og aðrir gáfu góð verð og varð útkoman þetta líka fína hús sem var vígt 2014 og við stöndum í nú.

Það er ekki sjálfgefið að reka björgunarsveit og því miður fer mikill tími félaga í fjáraflanir sem eru samt nauðsynlegar, alla vega eins og staðan er í dag. Hvort þær breytist verður tíminn að leiða í ljós. Við erum þakklát fyrir mikinn velvilja og greiðasemi félagsmanna, bæjarbúa, bæjarfélags, líknarfélaga og fyrirtækja.

Sérstaklega langar mig þó að minnast á Slysavarnadeildina Hraunprýði, en hún hefur verið okkar stoð og stytta og staðið við bakið á okkur með miklum myndarbrag hvort heldur með fjárframlögum eða óeigingjörnu starfi. Það er því með ánægju sem ég tilkynni það að á árinu verður farið í viðræður um frekari samvinnu milli Björgunarsveitar Hafnarfjarðar og Slysavarnafélagsins Hraunprýði.“

Góðar gjafir

Rósa Guðbjartsdóttir færði sveitinni góðar kveðjur og 100 þús. kr. frá Hafnarfjarðarbæ.

Bæjarstjórinn í Hafnarfirði, Rósa Guðbjartsdóttir, færði sveitinni kveðjur bæjarstjórnar og þakkaði hið mikla og eigingjarna starf félagsmanna. Sagði hún að aldrei væri hægt að þakka að fullu fyrir það sem félagsmenn væru að leggja á sig og til samfélagsins. Færði hún blóm og 100 þús. kr. gjöf sem þakklætisvotti frá Hafnarfjarðarbæ.

Þór Þorsteinsson formaður Landsbjargar og Gísli J. Johnsen formaður Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.

Þór Þorsteinsson formaður Landsbjargar ávarpaði gesti og færði sveitinni veglega björgunartösku.

Ólafur Proppé, gildismeistari St. Georgsgildisins í Hafnarfirði.

Ólafur Proppé, gildismeistari St. Georgsgildisins í Hafnarfirði, félags eldri skáta, færði sveitinni kveðjur og gjafabréf að afnotum af skátaskálanum við Hvaleyrarvatn.

Bjarni Freyr Þórðarson félagsforingi Skátafélagsins Hraunbúa færði sveitinni 200 þús. kr. gjöf til tækjakaupa.

Bjarni Freyr Þórðarson, félagsforingi Skátafélagsins Hraunbúa, færði sveitinni kveðjur skáta og þakkaði mikið og gott samstarf og færði sveitinni gjöf frá félaginu, 200 þús. kr. til tækjakaupa.

Sveitinni bárust fleiri gjafir og kveðjur en sveitin hefur notið mikillar góðvildar bæjarbúa og fyrirtækja og eldri félaga sveitanna.

Gunnar Torfason, fv. vörubílstjóri, var lengi í Hjálparsveit skáta en hann hafði gefið sveitinni gamla gallann sinn, sem hann stendur við og veglega gjöf þegar hann varð 80 ára.

Félagar og gestir höfðu um margt að spjalla og heyra mátti upprifjun á afrekum félagsmanna í gegnum tíðina og fræknum björgunum.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2