30-90 ára kepptu í frjálsum íþróttum

FH var hársbreidd frá sigri

Sprettharðir FH-ingar

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum öldunga var haldið í Laugardalshöll um helgina. Þar kom saman þrautreynt eldra frjálsíþróttafólk í bland við áhugasamt fólk sem er jafnvel á sjötugsaldri að prófa nýja íþróttagrein. Keppt var í stangarstökki, hástökki, langstökki, þrístökki, kúluvarpi, 60 m grindahlaupi, 60, 200, 400, 800 og 3.000 m hlaupi og í fjölmörgum aldursflokkum karla og kvenna. Hver aldurshópur er 5 ár en aldurslágmarkið er 30 ára í kvennaflokki og 35 ára í karlaflokki.

Keppendur komu frá 14 félögum og fulltrúar frjálsíþróttadeildar FH komu að þessu sinni allir úr Hlaupahópi FH. FH hefur oft áður sent fleiri félaga og nokkrum sinnum unnið stigakeppni félaga en að þessu sinni voru keppendur félagsins aðeins sjö, sex karlar og ein kona.

16 Íslandsmeistaratitlar FH-inga

En þegar mikið er á sig lagt og keppt í mörgum greinum þá er möguleiki á árangri og FH-ingarnir hömpuðu 16 Íslandsmeistaratitlum, þeir fengu 8 silfur og 4 brons. Með árangri sínum náðu FH-ingarnir 166 stigum.

UFA sigraði í keppni félaga

Unnar Vilhjálmsson UFA með Íslandsmeistarabikarinn

Það dugði þó ekki gegn öflugu liði UFA, Ungmennafélaga Akureyringa, sem hins vegar var að mestu skipað konum. UFA fékk 174 stig og hampar því Íslandsmeistaratitlinum í liðakeppninni í ár. FH-ingar sigruðu hins vegar með yfirburðum í karlakeppninni sem skilar þó engum bikar eða titli.

Bestu afrek mótsins

Bestum árangri í kvennaflokki náði Anna Sofia Rappich (55), UFA, er hún hljóp 60 metra á 8,87 sek. Jafngildir árangur hennar 94,93% af því besta í hennar aldursflokki í heiminum skv. töflu World Masters Atheletics (WMA).

Bestum árangri í karlaflokki náði Kristján Gissurarson (66), Breiðabliki er hann hljóð á 9,18 sek. í 60 m hlaupi. Jafngildi árangur hans 87,58% af því besta í hans aldursflokki skv. WMA.

Aldursflokkamet sett

Malgorzata Sambor Zyrek

Malgorzata Sambor Zyrek úr Ármanni setti aldursflokkamet í flokki 45-49 ára.
Hún hljóp 200 metra á 28,21 sekúndum.

Hafsteinn Óskarsson

Hafsteinn Óskarsson úr ÍR setti tvö aldursflokkamet í flokki 60-64 ára.
Hann hljóp 400 metra á 60,71 sekúndum og 800 metra hlaup á 2:26,52 mínútum.

Halldór Matthíasson

Halldór Matthíasson úr ÍR setti aldursflokkamet í flokki 70-74 ára, 2,70 m.

Uppörvandi samfélag

Á svona mótum hittist íþróttafólk víða að og leiðbeinir hvert öðru eftir þörfum. Meðal keppenda var austfirski íþróttakappinn Sigurður Haraldsson sem verður 91 árs á þessu ári. Keppir hann fyrir Leikni og sigraði að sjálfsögðu í sínum aldursflokki í kúluvarpi.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here