fbpx
Fimmtudagur, desember 12, 2024
target="_blank"
HeimÁ döfinni„Órofið flæði“ – Örsýning á verkum Rúnu

„Órofið flæði“ – Örsýning á verkum Rúnu

Í gær var opnuð örsýning í Litla galleríi með verkum eftir Rúnu, Sigrúnu Guðjónsdóttur sem nú er tæplega 98 ára gömul en hún var bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2005.

Rúna ólst upp í Hafnarfirði, dóttir hjónanna Guðjóns Guðjónssonar skólastjóra barnaskólans og Ragnheiðar Jónsdóttur rithöfundar.

Listrænir hæfileikar Rúnu komu snemma í ljós. Hún byrjaði að teikna um leið og hún gat valdið blýantinum og um fermingaraldur var hún farin að leita út í náttúruna til að mála og teikna. Hún hóf nám á kvöldnámskeiði Myndlista- og handíðaskólans á Grundarstíg í Reykjavík 15 ára árið 1943 og eftir það í hinum nýja dagskóla. Ári síðar settist í skólann ungur maður sem hét Gestur Þorgrímsson og þau urðu fljótlega par. Þegar bæði höfðu lokið námi við skólann héldu þau til náms við Konunglega kúnstakademíið í Kaupmannahöfn þar sem hún lagði stund á málaralist en hann settist í myndhöggvaradeild. Þau komu heim sumarið 1947 með ungt sveinbarn og stofnuðu ásamt fleiri listamönnum leirmunagerðina Laugarnesleir. Þar með var hafinn listamannaferill Gests og Rúnu sem átti eftir að standa í meira en hálfa öld.

Uppeldi fjögurra barna og brauðstrit tók sinn tíma, en blað og blýantur voru alltaf innan seilingar Rúnu, sköpunarþörfin sofnaði aldrei.  Eftir daga Lauganesleirs fór Rúna að vinna að myndlýsingum bóka og síðar tóku þau hjónin aftur til við leirmunagerð. Þau unnu líka saman að gerð skreytinga utanhúss. Þótt samvinna þeirra væri náin þroskuðust þau einnig sem sjálfstæðir listamenn.

Verkefnin á löngum myndlistarferli Rúnu urðu mörg og margs konar: myndlýsingar og auglýsingar, hönnun fyrir keramikframleiðslu og leirmunaskreytingar, málverk og teikningar og stórar veggskreytingar. Rúna vildi að í þessari sýningu yrði lögð áhersla á fjölbreytnina á ferli hennar, ekki síst á myndlýsingarnar, en úr þeim má lesa þróun frá léttu línuspili skreytinga yfir í þá þrykktækni sem varð eitt af höfuðeinkennum hennar. Einnig má hér sjá frumteikningar af diskunum sem gefnir voru út í tilefni af þjóðhátíðinni 1974 og fleiri frummyndir að keramikframleiðslu.

Efniviður og samhengi móta lausnir en höfundareinkenni Rúnu eru ávallt skýr, formin eru lífræn í mýkt sinni hvort sem um er að ræða hlutbundna eða óhlutbundna list, línan er sterk og leikandi, litaspilið oftast fínlega tónað. Málverk, einkum á handgerðan japanskan pappír, eru ásamt myndum á keramiskar flísar þau verk sem flestir þekkja frá hennar hendi. Rúna hélt margar sinna stærstu sýninga eftir að þeim aldri var náð sem flestir kenna við eftirlaun – síðast hélt hún einkasýningu þegar hún fagnaði níræðisafmæli sínu.

Með háum aldri minnkar þrekið og sjónin hefur nú daprast svo mjög að Rúna getur ekki lengur lesið eða skrifað. En hún opnar ennþá litakassann og dregur fram pennana þegar nær dregur jólum. Um langt árabil hafa gjafir afkomendanna verið skreyttar handgerðum merkimiðum og þannig verður það enn um næstu jól. Sumar smámyndanna sem hér sjást eru gerðar á undanförnum vikum. Litanæmi Rúnu hefur ekki dofnað, hún velur saman skæra tóna sem skína í fullkomnu jafnvægi. Línan dansar enn styrk og hrein úr pennanum, höndin man, flæðið er órofið.

Rúna var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 2014.

Sýningin er opin

Laugardag 9. nóvember kl. 12 til 17
Sunnudag 10. nóvember kl.14 til 17

Viðburðurinn er styrktur af Hafnarfjarðarbæ.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2