Kvartett Söru Magnúsdóttur, orgelleikara, kemur fram á Síðdegistónum í Hafnarborg á föstudaginn.
Sara gaf út sína fyrstu plötu, A Place to Bloom, þann 22. ágúst síðastliðinn, með frumsaminni tónlist. Á tónleikunum mun kvartettinn flytja nýju plötuna í heild sinni, ásamt vel völdum djassslögurum.
Sara Magnúsdóttir hefur verið virk á djasssenunni í Reykjavík um árabil. Hún hefur stundað tónlistarnám í Bandaríkjunum síðustu ár og býr nú í New York en kemur reglulega til Íslands að spila á tónleikum.
Með henni leika Jóel Pálsson á saxófón, Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar og Einar Scheving á trommur. Allir hafa þeir verið atkvæðamiklir í íslensku tónlistarlífi, gefið út fjölmargar plötur og unnið til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir sínar útgáfur.
Tónleikarnir hefjast kl. 18, standa í um klukkustund og er aðgangur ókeypis.