Laugardagur, september 13, 2025
HeimUmræðanAukum vægi listar­innar í námi barna og ungmenna

Aukum vægi listar­innar í námi barna og ungmenna

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Veröldin virðist breytast hraðar og hraðar með hverju árinu. Framtíðin verður æ óljósari eftir því sem tækninni fleygir fram. Það er orðið erfitt að sjá eitt ár fram í tímann hvað þá áratug eða meira. Veröldin sem við okkur blasir í dag er gjörólík þeim heimi sem við okkur blasti fyrir áratug.

Þau börn sem nú stíga sín fyrstu skref á skólagöngu sinni munu útskrifast úr grunnskóla 2035, verða stúdentar 2038 og fara út á vinnumarkað 2042. Hvernig veröldin verður þá er ómögulegt að spá fyrir um. Hvaða störf verða til þá er erfitt að átta sig á.

Tæknin er farin að leysa manns­hönd­ina og mannshugann af hólmi í auknum mæli. Við menntum börnin okkar fyrir framtíð sem enginn veit hvernig verður. Áður fyrr, fyrir ekki svo löngu síðan þegar samfélagsbreytingar voru töluvert hægari en nú, var nokkuð auðvelt að segja til um hvernig næsti áratugur myndi líta út. Hann var örlítið nýrri og betri útgáfa af því sem fyrir var. Handrit lífsins lá ljóst fyrir og auðveldara var að undirbúa sig fyrir verkefni framtíðar­innar. Í dag búum við ekki við þau lífsgæði, breytingarnar eru svo örar að handrit dagsins í dag er orðið úrelt á morgun.

Að þessu sögðu tel ég mikilvægt að við hefjum listnám og listsköpun til meiri vegs og virðingar. Ég tel mikil­vægara en nokkru sinni fyrr að fóstra og næra getu okkar til frumlegrar hugsunar og sköpunar. Það verður alltaf eftirspurn eftir nýrri hugsun, frumlegri hugsun og skapandi. Þess vegna eiga að listir að fá stærri og veigameiri sess í námi barna og ungmenna.

Sá hraði sem einkennir samfélags­breytingar mun kalla á frumleika, ný­sköpun og gagnrýna hugsun. Ekkert fóstrar og þroskar þá eiginleika, sem býr í hverjum og einum, jafn vel og listnám og listsköpun.

Leiklist, myndlist, tónlist, söngur og dans undirbýr fólk til að hugsa og sjá möguleika hins óséða og hins óáþreifan­lega. Eykur samstöðu og samkennd, þjálfar fólk í samvinnu, umburðarlyndi og hlustun og tengir fólk saman.

Listir og sköpun er mótefnið við þæginda­ramma tæknisamfélagsins. Listin getur hjálpað okkur að skapa tilgang og meiningu, fyrir utan þá gleði sem hún veitir okkur.
Lyftum listinni upp til meiri vegs og virðingar í menntun barna og ungmenna.

Jón Ingi Hákonarson
bæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2