Ný umhverfis- og auðlinda­stefna Hafnarfjarðar

Skortur á fé til markvissra aðgerða!

Friðþjófur Helgi Karlsson

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 18. janúar 2017 var samþykkt að frumkvæði fulltrúa Samfylkingarinnar og VG að fara í endurskoðun á gildandi umhverfis- og auðlindastefnu Hafnarfjarðar sem samþykkt var í bæjar­stjórn 13. mars 2013. Sú stefna er að mörgu leyti vel gerð en alls ekki nógu aðgerð­ar­bundin og hefur því ekki orðið virk stefnumótandi áætl­­un um jafn mikilvægan mála­­flokk og umhverfismálin eru í okkar bæjarfélagi.

Það var því ljóst við upphaf vinnu þess vinnuhóps sem skipaður var til að endur­skoða gildandi stefnu að öflug aðgerðaráætlun þyrfti að fylgja þeim stefnumarkmiðum sem sett yrðu fram í hinni endurskoðuðu stefnu.

Á það lögðum við fulltrúar Sam­fylkingarinnar í umhverfis- og fram­kvæmda­­ráði mikla áherslu strax í upp­hafi vinnunnar.

Nú liggja fyrir drög að stefn­unni sem er í yfirlestri áð­ur en hún verður borin upp í bæjarstjórn til samþykktar. Það er skemmst frá því að segja að hópurinn stóð sig af­ar vel í vinnunni og fyrir ligg­ur metnaðarfull stefna sem er mjög vel aðgerðar­bundin og þannig líkleg til að kom­ast til framkvæmda. En það er einn hængur á. Lýtur það að því fjármagni sem gert er ráð fyrir að setja í um­hverfismál í þeirri fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 sem nú hefur farið í gegn­um fyrri umræðu í bæjarstjórn. Það er ljóst að þar verður að bæta í umtalsverðu fjármagni svo það megi koma hinni metnaðarfullu stefnu í markvissa framkvæmd. Að óbreyttu er hætta á að sú umhverfis- og auðlinda­stefna sem nú liggur fyrir og bíður af­greiðslu í bæjarstjórn verði ekkert annað en fallegt plagg og lítið annað. Við slíkt verður ekki unað. Við fulltrúar Samfylkingarinnar í umhverfis- og fram­kvæmdaráði munum beita okkur fyrir því á næstu vikum að meira fé verði sett í þann mikilvæga málaflokk sem umhverfismálin eru svo hægt verði að fara í stórsókn í þeim hér í bæjar­félaginu. Helst með þeim hætti að Hafnarfjörður verði öðrum sveitarfélög­um fyrirmynd þegar kemur að mark­vissum aðgerðum í umhverfismálum.

Friðþjófur Helgi Karlsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og á sæti í umhverfis- og framkvæmdaráði.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here