Loksins, loksins..

Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar skrifar:

Stefán Már Gunnlaugsson

Á síðasta bæjarstjórnarfundi var samþykkt að úthluta lóðinni Stuðlaskarði 2-4 til Landssamtaka Þroskahjálpar til byggingar búsetukjarna fyrir fatlað fólk. Þar með lýkur sex ára langri bið og baráttu fólksins fyrir fullnægjandi búsetuúrræði fyrir börnin sín, sem nálgast nú þrítugsaldurinn. Að baki þessu verkefni stendur rekstrarfélagið Vinabær sem er hlutafélag í eigu íbúanna og hefur þann tilgang að sjá um byggingu og þjónustu húsnæðisins að Stuðlaskarði. Markmið félagsins er að efla þjónustu, styrkja sjálfstæði íbúanna og mæta félagslegum þörfum. Íbúarnir og aðstandendur þeirra eiga hrós skilið fyrir framtakið og vandaðan undirbúning. Verkefnið hefði átt að vera átt að vera komið til framkvæmda fyrir löngu en betra er seint en aldrei.

Breytum forgangsröðuninni

Það er sjálfsögð krafa að fólk með fötlun njóti búsetuúrræða sem hæfa aðstæðum og hafi aðgang að sérsniðinni þjónustu. Hér eru í húfi réttindi og lífskjör fatlaðs fólks. Það er pólitíkin sem ber ábyrgð á því að ekki er forgangsraðað í þágu þeirra sem minnst mega sín – og verða svo oft útundan. Því miður er þetta ekki eina dæmið um baráttu fólks við kerfin og kerfislægan vanmáttinn til að bregðast skjótt við knýjandi aðstæðum. Fleiri eru í brýnni þörf og eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Samkvæmt svörum við fyrirspurnum fulltrúa Samfylkingarinnar í fjölskylduráði á síðast ári, þá voru þá 56 fatlaðir einstaklingar á biðlista eftir félagslegu húsnæði og þar af 28 taldir í brýnni þörf og meðalbiðtíminn sex ár. Þetta er fólk sem vill flytja að heiman og er í þörf fyrir betri þjónustu sem það fær aðeins með sjálfstæðri búsetu. Hér þarf að standa vaktina og það er á ábyrgð kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn.

Eyðum biðlistum

Það er mikið álag á foreldrum fatlaðra barna sem þurfa sértæk úrræði og þjónustu. Fólk á ekki að þurfa að bíða í mörg ár eftir húsnæði eða standa í langri og erfiðri í baráttu fyrir sjálfsögðum réttindum. Vandinn er stór og við eigum að setja það í forgang að eyða biðlistum og styðja við góðar hugmyndir. Þær mega ekki sofna í flókinni stjórnsýslu. Þá skiptir öllu að eiga traust samstarf og samráð við þá sem eiga í hlut svo hægt sé að móta úrræðin og þjónustuna þannig að nýtist sem best og uppfylli skilyrði mannréttinda. Hér er stigið skref í þá átt, en betur má ef duga skal.

Stefán Már Gunnlaugsson
varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here