fbpx
Fimmtudagur, apríl 18, 2024
HeimUmræðanFíkniefni og unga fólkið okkar

Fíkniefni og unga fólkið okkar

Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi skrifar

  • Hvernig sinnum við vímuvarna­fræðsl­unni í heilsubænum Hafnarfirði á árangursríkan hátt?
  • Hver ber ábyrgðina á því að ala upp börnin í Hafnarfirði?

Þetta eru stórar spurningar og svörin eru mörg.

Í gegnum skólann, foreldra, íþróttafélög og félags­mið­stöðvar fá börnin okkar fræðslu um hætturnar sem tengj­­ast vímuefnaneyslu. Í mínum huga er notkun raf­retta, tóbaks, áfengis og kanna­­­bis allt hluti af því að teljast vímuefnaneysla. Hins vegar tel ég að við þurfum að auka fræðslu til foreldra um skaðsemi þessara efna og benda á verndandi þætti gagnvart vímuefna­neyslu. Hér er tækifæri fyrir Hafnar­fjörð, skólann og foreldrafélögin að gera betur. Foreldrar eru þeir sem bera ábyrgð á uppeldi barna sinna og hafa mik­ið um það að segja hvort börnin okkar byrji að neyta fíkniefna.

Verndandi þættir gegn fíkniefnaneyslu eru meðal annars þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, að foreldrar viti hvar unglingarnir eru og með hverjum, að framfylgja útivistarreglum og að verja tíma sinum með unglingunum. Þátttaka í for­eldrastarfi grunn­skólanna og þátttaka í for­eldra­rölti er góð leið til að taka þátt í sam­félagsverk­efninu að byggja börnunum öruggt umhverfi því það þarf heilt þorp til að ala barn.

Aukning er meðal unglinga að nota rafrettur en um 20% nemenda í 10. bekk sögðust í fyrra hafa notað rafrettu einu sinni eða oftar um ævina. 1. mars taka lög gildi um rafrettur sem líkja þeim við tóbak og hreinlega banna sölu til barna. Okkur hefur ekki gengið vel síðustu ár að minnka kannabis­reyk­ing­ar ungmenna og þar þarf að finna leið til að ná árangri. Þó að einhverstaðar í hinum stóra heimi sé löglegt að nýta þetta efni til lækninga þá er það ljóst að börnin okkar eru ekki sjúklingar sem þurfa slíkt. Það eru líka til góðar fréttir af neyslu unglinga því að í dag hafa um 97% unglinga í 10. bekk ekki prufað að reykja tóbak en um aldamótin reyktu 20% unglinga í 10. bekk daglega í Hafnarfirði.

Þegar foreldrar, skólar og aðrir sem tengjast uppelda barna vinna saman að verkefnum sem ýta undir heilbrigðan lífsstíll barna og unglinga þá eru mestar líkur á að raunverulegur árangur náist.

Geir Bjarnason,
íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar.

Greinin birtist í Fjarðarfréttum, fréttablaði Hafnfirðinga 7. febrúar 2019.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2