Bæjarlistinn – bara fyrir Hafnarfjörð

Guðlaug Svala Kritjánsdóttir skrifar

Mynd af höfundi
Guðlaug Svala Kritjánsdóttir

Fyrir fjórum árum ákvað hópur fólks að bjóða fram óháðan lista í bæjarstjórnarkosningum í Hafnarfirði. Sum voru að stíga sín fyrstu skref en önnur með reynslu af flokkum. Sameiginlegt öllum var metnaður til góðra verka í bland við lítinn áhuga á flokkakerfinu.

Menning stjórnmálaflokkanna hefur ekki alltaf gagnast Hafnarfirði vel. Löng hefð  þrálátra átaka með tilheyrandi togstreitu og neikvæðni veldur því að góð mál missa marks ef þau koma „úr rangri átt“ og illvíg ásýnd bæjarmálanna fælir íbúa frá þátttöku í eigin málum.

Bæjarlistinn fékk fulltrúa kjörinn 2018 og hefur starfað á vettvangi bæjarins síðan.

Hörð á málum en mjúk á manninn

Við höfum lagt okkur fram um málefnalega nálgun út frá hagsmunum íbúanna, enda starfar Bæjarlistinn einungis fyrir Hafnfirðinga.

Við andmæltum sölunni á hlut bæjarbúa í HS Veitum kröftuglega og gerðum athugasemdir við framkvæmd og undirbúning þess ferlis. Salan var hvorki nauðsynleg né nægilega rökstudd enda er í dag ekki hægt að sjá skýrt hvert fjármunirnir sem fengust fyrir hlut bæjarins fóru. Þeir virðast hafa farið í hítina.

Bæjarlistinn hefur ekki bara veitt aðhald, heldur líka lagt fram fjölda tillagna sem sumar hlutu brautargengi. Við andmæltum þrengdum reglum NPA þjónustu og gerðum fjölmargar úrbótatillögur á þeim sem því miður voru allar hunsaðar. Tillögu um heildstæða stefnumótun í búsetumálum fatlaðs fólks var vel tekið en síðan ekki fylgt eftir. Ánægjulegt var hins vegar að sjá tillögu okkar um iðjuþjálfun í skóla rata í fjárhagsáætlun og mikilvægt að vel takist.

Ég vildi að ég gæti bara kosið fólk…

Þetta heyrist oft þegar kosningar nálgast. Áherslur Bæjarlistans ráðast af fólkinu sem hann skipar og einkennast af heilsueflingu, fjölskylduvænu samfélagi, ábyrgu skipulagi, umhverfisáherslum og íbúasamráði. Hafnfirðingar geta kosið fólk í stað flokka.

Ég þakka fyrir minn tíma í bæjarstjórn og treysti nýrri forystu Bæjarlistans til allra góðra verka.

Guðlaug Svala Kristjánsdóttir,
bæjarfulltrúi, skipar 4. sæti Bæjarlistans.

Ummæli

Ummæli