Meirihlutinn fær falleinkunn fyrir kjörtímabilið

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir skrifar

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir

Í Hafnarfirði er meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar að reyna að telja fólki trú um að þau hafi tekið við alveg ómögulegu búi af vinstriflokkunum eftir að „gegndarlaus skuldasöfnun hafði komið bæjarfélaginu á ystu nöf…“ (Rósa Guðbjartsdóttir, Morgunblaðinu 29. mars 2018).

Ég verð að viðurkenna það að mér er ekki vel við að sá árangur sem ég er hvað stoltust af að hafa unnið sem bæjarstjóri sé tekinn og látið eins og hann hafi bara ekki gerst. Hið rétta er að forsendur traustrar fjárhagsstöðu Hafnarfjarðar byggir á þrotlausri tveggja ára vinnu Vinstri grænna og Samfylkingar við endurfjármögnun erlendra lána bæjarins sem tókst að ljúka vorið 2014. Við það gjörbreyttist fjárhagsstaða Hafnarfjarðar.

Glötuð tækifæri

Hvað hafa Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð gert með þennan árangur sem þau fengu upp í forgjöf? Hafa þau notað tækifærið og forgangsraðað til að auðvelda ungum foreldrum að fá gæslu fyrir börnin sín að loknu fæðingarorlofi? Nei! Hefur núverandi meirihluti stuðlað að uppbyggingu á fjölbreyttu íbúðarhúsnæði? Nei! Hefur núverandi meirihluti auðveldað fyrirtækjum að flytja starfsemi sína í bæinn? Nei! Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar fær því falleinkunn fyrir kjörtímabilið.

Gerum betur og kjósum Vinstri græn!

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir
fyrrverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Ummæli

Ummæli