fbpx
Laugardagur, maí 18, 2024
HeimFréttirVextir námslána lækka úr 1% í 0,4% og ábyrgðarmenn losna undan ábyrgð

Vextir námslána lækka úr 1% í 0,4% og ábyrgðarmenn losna undan ábyrgð

Metið er að aðgerðirnar kosti 14 milljarða króna

Tekjutengd afborgun námslána lækkar þegar bæði vextir og endurgreiðsluhlutfall á eldri námslánum LÍN verða lækkuð á næstunni. Ábyrgðarmenn á um 30.000 lánum verða felldir brott til að tryggja jafnræði og uppgreiðsluafsláttur hækkaður upp í allt að 15% þegar tillögur um að bæta stuðning við greiðendur námslána verða innleiddar.

Var þetta kynnt á veffundi úr forsætisráðuneytinu í dag.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hrinda í framkvæmd tillögum starfshóps sem forsætisráðherra skipaði árið 2019 um endurskoðun á reglum vegna endurgreiðslna námslána. Hópurinn var skipaður í tengslum við kjaraviðræður á opinberum markaði.

Aðgerðirnar sem ríkisstjórnin ræðst í eru eftirfarandi:

  • Vextir námslána lækka úr 1% niður í 0,4%.
  • Endurgreiðsluhlutfall lána lækkar til samræmis sem lækkar afborganir.
  • Afsláttur vegna uppgreiðslu námslána verður allt að 15% framvegis.
  • Ábyrgðarmenn á lánum í skilum sem tekin voru fyrir 2009 falla brott og jafnræði þannig tryggt.

Starfshópurinn mat núvirtan kostnað aðgerðanna um 14 milljarða króna. Hann fellur til yfir lengri tíma og unnt er að láta greiðendur námslána njóta góðs af sterkri fjárhagsstöðu Lánasjóðsins sem fjármagnar aðgerðirnar.

Forsætisráðherra skipaði starfshópinn í kjölfar samráðsfunda stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í tengslum við gerð kjarasamninga þar sem m.a. var rætt um menntamál og hag launþega að námi loknu. Aðilar vinnumarkaðarins bentu á að lántakar greiddu um 4% af launum sínum í afborganir af námslánum á ári eða sem samsvaraði u.þ.b. einum útborguðum mánaðarlaunum á ári. Þessi byrði hefur reynst þung fyrir ungt fólk sem er að koma sér þaki yfir höfuðið og hasla sér völl á vinnumarkaði. Starfshópinn skipuðu Haraldur Guðni Eiðsson, tilnefndur af forsætisráðherra, Agnes Guðjónsdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðherra, Georg Brynjarsson, tilnefndur af Bandalagi háskólamanna, Lilja K. Sæmundsdóttir, fyrir hönd iðnaðarmannafélaga og Steingrímur Ari Arason, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðherra.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2