Fuglavernd skorar á kattaeigendur að halda köttum inni yfir varptíma fugla. Í tilkynningu frá félaginu segir að kettir séu öflug og afkastamikil rándýr sem höggva stór skörð í stofna fugla sem verpa í nágrenni við mannabústaði ár hvert.
„Á varptíma er því mikilvægt að lausaganga katta sé takmörkuð og sérstaklega yfir nóttina. Bjöllur og kattakragar eru í sumum tilfellum betri vörn en engin en langbest er að halda þeim inni“.
Kettir veiða helst algenga garðfugla: (smellið á tegundina til að sjá varptíma)
Skógarþröstur, svartþröstur, stari, snjótittlingur, auðnutittlingur, þúfutittlingur
Aðgát við Ástjörn og Hvaleyrarvatn
Frá 1. maí til 15. júlí er umferð á friðlandin við Ástjörn bönnuð og umferð aðeins leyfð á stígum í kringum vatnið.
Flórgoðinn er minni en minnstu endur og í varpbúningi með einkennandi gullna eyrnaskúfa á dökku höfðinu. Flórgoðinn verpti um tíma á Ástjörninni en undanfarin ár haf pör verpt á Hvaleyrarvatni og mikilvægt að þar sé engin lausaganga hunda frekar en við Ástjörnina. Flórgoðinn er einstakur meðal íslenskra fugla því hann er algjörlega háður vatnalífi og fer ekki einu sinni á land til að verpa, heldur gerir sér flothreiður sem hann festir í stör eða annan vatnagróður.
Kettir hræddir við vatn
Vilji garðeigendur verja fuglavarp í garðinum sínum fyrir ágangi katta getur verið ráð að sprauta köldu vatni á köttinn þegar hann gerir sig líklegan til að fara í hreiður (auðvitað á þann hátt að kettinum verði ekki meint af). Sumum hefur reynst vel að hafa garðúðara í gangi með litlum þrýstingi undir hreiðurstað. Þá hefur vatnsúðarakerfi með hreyfiskynjurum gefið góða raun. Einnig fást í dýrabúðum ýmis fælingarefni með lykt sem köttum finnst vond, sem t.d. má setja undir tré með hreiðri. Allt gæti þetta dregið verulega úr áhuga kattarins á viðkomandi hreiðri en óvíst er þó hvort slíkar aðgerðir trufli varpfuglana.
Heimild: Menja Von Schmallensee, 2019. Heimiliskötturinn. Besti vinur mannsins en ógn við fuglalíf?