fbpx
Þriðjudagur, október 8, 2024
HeimFréttirTillaga að breyttu miðbæjarskipulagi á litlum hluta miðbæjarins

Tillaga að breyttu miðbæjarskipulagi á litlum hluta miðbæjarins

Heildarendurskoðun miðbæjarskipulagsins í molum

Lögð hefur verið tillaga að breytingu á deiliskipulagi Miðbæjarins frá 2001 en vinna hefur verið í gangi á heildarendurskoðun skipulagsins. Skilað starfshópur um skipulag miðbæjar Hafnarfjarðar lokaskýrslu 25. janúar sl. þar sem lagt var til að skýrslunni yrði vísað til umhverfis- og skipulagssviðs til frekari úrvinnslu við gerð forsagnar nýs deiliskipulags.

En hin nýja tillaga er aðeins einn moli í skipulaginu því hún tekur aðeins til svæðisins sem afmarkast af Strandgötu, Reykjavíkurvegi, Austurgötu og Linnetsstíg.

Er þetta 23. breytingin á deiliskipulaginu frá 2001 og er þá ekki meðtalin breytingartillaga vegna Strandgötu 26-30.

Ásýnd frá Fríkirkjunni, ný hús við Austurgötu 18 og Strandgötu 13.

Í hinu nýja skipulagi er gert ráð fyrir 47 nýjum íbúðum, m.a. í efri hæðum Strandgötu 1, þar sem nú er bókasafn. Lagt er til að lóðirnar Austurgata 18 og Strandgata 13, sem báðar liggja að Linnetsstíg verði sameinaðar og stækkaðar til suðurs. Þar verði sameiginleg bílgeymsla  með aðkomu frá Strandgötu. Gert er ráð fyrir atvinnustarfsemi á jarðhæð og íbúðum á efri hæðum. Þá er lagt til að Beggubúð verði flutt aftur á sinn gamla stað á torginu.

Ásýnd í vestur eftir Strandgötu

Skipulags- og byggingarráð samþykkti tillöguna að teknu tilliti til lagfæringa á skýringarmynd, og að málsmeðferð verði í samræmi við skipulagslög. Jafnframt var erindinu vísað til bæjarstjórnar til staðfestingar.

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar staðfesti á fundi sínum 1. júlí sl. afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs

Ásýnd að Austurgötu frá Kirkjuvegi. Endurgert hús á Strandgötu 1.

Helstu stærðir

Skipulagsreiturinn er 7.400 m2 en þar af er flatarmál lóða 4.373,5 m2.

Byggingarmagn er  9.857 m2 og þar af 2.075 m2 neðanjarðar. Nýtingarhlutfall er 2,2. Í gildandi deiliskipulagi er leyfilegt byggingarmagn 8.555 m2.

Gert er ráð fyrir 55 bílastæðum sem er aðeins 1 stæði á hverja 179 m2 bygginga.

Ásýnd austur Linnetsstíg.

Gildandi aðalskipulag

Í gildandi aðalskipulagi segir um miðbæ og miðsvæði m.a. „Á miðsvæðum skal fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, bænum í heild sinni eða fleiri en einu bæjarhverfi, s.s. verslunum, skrifstofum, þjónustustofnunum, veitinga- og gistihúsum, menningarstofnunum og hreinlegum iðnaði.

Þar sem aðstæður leyfa má gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði, sérstaklega á efri hæðum bygginga. Þar sem sýnt er að ekki sé hægt að uppfylla bílastæðakröfur innan lóðar, er heimilt að uppfylla þær á almennum bílastæðum á miðsvæðinu gegn greiðslu sérstaks gjalds.“

Tillaga að deiliskipulagsuppdrætti.

Markmið deiliskipulags

Í lýsingu á hinni nýju deiliskipulagstillögu segir að í heildarmynd Hafnarfjarðar megi líta á Thorsplanið sem aðaltorg bæjarins en Ráðhústorgið sem græna torgið með áherslu á gróður, vatn og minni uppákomur. Mikilvægi göngutengingar við Byggðasafnið í vestri er ítrekuð.

Nýjar byggingar eiga að taka mið af byggðarstrúktur gamla Hafnarfjarðar.

Áhersla er lögð á grænt yfirbragð, list í götu og tengingar við starfsemi á jarðhæðum með 5 metra svæði fyrir þjónustu utandyra. Á torginu er þannig góð aðstaða fyrir uppákomur músik og fl. Gert er ráð fyrir að vatnsskúlptúr verði komið fyrir á miðju torgsins sem verði aðdráttarafl sem hvetji til leikja og samveru hvort sem er á heitum sumardegi eða þegar vatnið er í klakaböndum um hávetur.

Íbúðir á efri hæðum

Í tillögunni er gert ráð fyrir að almennt skulu jarðhæðir nýtast til starfsemi og efri hæðir sem íbúðarhúsnæði. Heimilt sé að svalir/útbyggingar standi allt að 1 m út fyrir byggingarreit.

Gildistími deiliskipulags er 5 ár.

Skilmálar

Austurgata 4a-8

Engin hús eru rifin. Austurgata 4a er endurgert samkvæmt upprunalegum teikningum með stórum kvist á norðurhlið. Austurgata 6 er nýbygging, tvær hæðir, ris og kjallari. Neðsta hæð fyrir starfsemi með aðkomu frá Ráðhústorgi og íbúðir á efri hæðum með aðkomu frá Austurgötu.

Austurgata 8 er friðað hús. Heimilt er að lyfta húsinu um hálfa hæð og leyfi fyrir kjallara í samráði við Minjastofnun. Gamla tréð (hlynur) í garðinum ber að halda. Létt viðbygging (glerbygging) er heimiluð austan við húsið, stölluð tengibygging með hallandi þaki.

Nýjar breiðar tröppur eru á milli Austurgötu og Ráðhústorgs, sem nýtast einnig sem sæti fyrir áhorf á viðburði á torginu. Lóðamörkum breytt þannig að hvert hús fær sína lóð.

Austurgata 10-10b

Austurgata 10, friðað hús sem þó mætti lyfta upp (hækka kjallara) í samráði við Minjastofnun.

Austurgata 10b, leyfi er fyrir nýbyggingu, 2 hæðir og kjallari. Hallandi þak skv. skilmálasniði. Aðkoma frá Austurgötu annars vegar og um millistíg /Ráðhústorg hins vegar. Til að fá meiri lofthæð er garður lækkaður. Gluggar eru leyfðir á lóðamörkum þó í samræmi við brunareglugerð.

Austurgata 12

Friðað hús. Hús óbreytt en kvöð er um göngutengsl syðst á lóð.

Austurgata 14-16

Leyfi fyrir viðbyggingu (Austurgata 14), 3 hæðir og ris. Kvistir ekki leyfðir.

Austurgata 18 / Strandgata 13

Austurgata 18, 3. hæða hús (að garði) með risi. Heimild er fyrir millipalli. Lóð Austurgötu 18 og Strandgötu 13 eru sameinaðar og stækkuð til suðurs. Sameiginleg bílgeymsla er með aðkomu frá Strandgötu. Starfsemi á jarðhæð og íbúðir á efri hæðum. Uppbrot er í þaki samkvæmt skýringarmynd. Nýjar tröppur eru á milli Austurgötu og millistígs.

Strandgata 13, 4. hæða hús, með inndreginni fjórðu hæð. Innkeyrsla í sameiginlegan bílakjallara Austurgötu 18 / Strandgötu 13 er frá Strandgötu. Gluggasetning taki mið af aðliggjandi húsum með áherslu á stakstæða glugga.

Strandgata 1

Starfsemi á jarðhæð, íbúðir á efri hæðum. Leyfi til að byggja ofan á pall á norður og vestur hlið, einnig lenging til suðurs á 2. og 3. hæð. Lóðamörk stækkuð til suðurs.

Strandgata 5

Leyfi fyrir flutningshúsi, Beggubúð eða sambærilegt (flutt aftur á sinn gamla stað).

Strandgata 9

Friðað hús. Byggingareitur stækkaður, gluggar leyfðir á lóðamörkum þó með tilliti til brunareglugerðar.

Leyfi er fyrir tveggja hæða byggingu með kjallara og risi. Rishæð deilist í tvo hluta. Gert er ráð fyrir svæði til útiþjónustu við suður og vestur hlið hússins, 5 metra svæði. Starfsemi á jarðhæð og íbúðir á efri hæðum.

Strandgata 11

Leyfi fyrir hækkun um eina hæð með inndreginni suðurhlið. 1.-3. hæð er ætluð fyrir starfsemi.

Hér má sjá kynningu á deiliskipulaginu.

 

 

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2