Þjónustuprammi frá Vélsmiðju Orms og Víglundar rak upp í fjöru skammt frá Sundhöllinni við Herjólfsgötu í nótt. Hafði pramminn verið bundinn við aðra skipakvína sem einnig er í eigu vélsmiðjunnar. Í nótt kom all mikill veðurhvellur með vestanátt og myndast þá oft ólga í höfninni. Losnaði pramminn og rak yfir hafnarmynnið og strandaði.
Háfjara var í morgun og pramminn var vel skorðaður í fjörunni. Voru starfsmenn Orms og Víglundar að koma á staðinn upp úr kl. 10 til að þétta prammann áður en hann yrði dreginn á flot á flóðinu en gat hafði komið á hann.
Ekki ætti að vera vandkvæðum bundið að ná prammanum á flot á næsta flóði en hann er flatbotna og nálega 12 metra langur.
Skv. upplýsingum Ágústs Inga Sigurðssonar hafnsögumanns er ekki vitað til að bátar hafi losnað frá bryggju í nótt enda ekki óalgengt að svona veður skelli á yfir vetrartímann.