Lögreglan tilkynnti fyrr í dag að stálgrindarhús við Dofrahellu hafi sprungið í óveðrinu sem nú gengur yfir.
Hið rétta er að þak fauk af um 1.400 m² iðnaðarhúsi að Borgahellu 4, sem er á horni Borgahellu og Búðahellu. Fóru samlokueiningar, sem eru blikkplötur með frauði á milli ofan af þakinu með miklum látum og dreifðust yfir nærliggjandi hverfi og má alveg líkja því við sprengingu miðað við ummerki. Fór þakið af 18 af 20 einingum sem húsinu er skipt niður í.

Við hlið hússins er annað eins hús í byggingu, Borgahella 2, og skemmdist það ekki að sögn fulltrúa húsbyggjanda en plötur af fyrra húsinu fuku á það hús.
Mesta mildi þykir að enginn hafi slasast. Einhverjar skemmdir eru á bílum og húsum í nágrenninu.

Eigandi að einni einingunni var að færa til hluti og breiða plasti yfir þegar blaðamaður leit við en þá mátti sjá að undirþakið stóð eftir, burðarvirki úr trapisuformuðu stáli sem samlokueiningarnar voru skrúfaðar í. Það heldur þó ekki vatni og víða lak niður í húsnæðið.
Húsbyggjandi sagðist ekki geta gefið neina skýringu á því af hverju svona fór en framleiðandi húsanna, sem er erlendur, hafi verið látinn vita.
Svæðið var lokað af enda var drasl á víð og dreif á götum en strax var hafist handa við hreinsunarstörf.

Þakeiningar sem fara áttu á húsið sem enn er í byggingu verða notaðar til að endurnýja þakið sem fauk svo ekki á að líða langur tími ef veður verður skaplegt, þar til húsin verða þétt á ný.

Hér má sjá sundurfletta einingu og skrúfu sem átti að halda plötunum niðri.
