fbpx
Þriðjudagur, apríl 16, 2024
target="_blank"
HeimFréttirTelja að kvikugangur hafi myndast sem eykur líkur á gosi

Telja að kvikugangur hafi myndast sem eykur líkur á gosi

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í gær til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Isavia-ANS, HS-Orku og ÍSOR.

Fram kom á fundinum að sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar hafði mælt um 1800 skjálfta frá miðnætti og eru þeir að mestu bundnir við svæði SV af Keili og Trölladyngju. Af þessum 1800 eru 23 skjálftar að stærð 3 eða stærri og um 3 skjálftar eru 4 að stærð eða stærri. Sá stærsti frá miðnætti mældist kl. 16:35, 5,1 að stærð og átti hann upptök um 1 km ASA við Keili.

Skv. upplýsingum á vef Veðurstofunnar varð samtals 41 skjálfti, 3 að stærð eða stærri í gær, mánudag.

Það sem af er degi (kl. 11) hafa þegar orðið 22 skjálftar sem eru 3 að stærð eða stærri og 5 sem eru 4 eða stærri. Stærsti skjálftinn mældis 4,6 kl. 5 mínútur yfir klukkan 3 í nótt og átti hann upptök sín 2,2 km NA af Fagradalsfjalli

Flestir skjálftanna verða á þessu svæði, m.a. stærsti skjálftinn í gær sem mældist 5,1.

Vísindaráð fór einnig yfir  gervihnattamyndir (InSAR) sem bárust í gær. Úrvinnsla úr þeim myndum sýna  meiri færslu en áður hefur orðið vart við á svæðinu síðustu daga. Líklegasta skýringin er sú að kvikugangur sé að myndast undir því svæði þar sem mesta jarðskjálftavirknin hefur verið síðustu daga. Unnið verður betur úr þessum nýju gögnum m.a. með líkangerð til þess að varpa skýrara ljósi á framvindu mála.

Nýjasta úrvinnsla úr gervihnattamyndum úr Sentinel-1 sem barst í gærmorgun. Hún sýnir meiri færslu en áður hefur orðið vart við á svæðinu síðustu daga og á því svæði þar sem mesta jarðskjálftavirknin hefur verið

Í ljósi þessara nýju gagna sem rædd voru á fundinum í gær er mikilvægt að skoða nánar þá sviðsmynd sem snýr að kvikuinnskoti undir svæðinu við Fagradalsfjall.

Mögulegar sviðsmyndir:

  • Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
  • Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 6 að stærð í nágrenni við Fagradalsfjall
  • Skjálfti af stærða allt að 6.5 verður sem á sér upptök í Brennisteinsfjöllum
  • Kvikuinnskot haldi áfram í nágrenni við Fagradalsfjall:
    i) Kvikuinnskotsvirkni minnkar og kvika storknar
    ii) Leiðir til flæðigoss með hraunflæði sem mun líklega ekki ógna byggð
Skjálftasvæðið með Trölladyngju og Grænudygnju fremst sem mynduðust við gos undir jökli fyrir lok ísaldar. Hins vegar gaus úr sprungu sem skerst í gegnum Trölladyngju á fyrstu öldum Íslandsbyggðar.

Núverandi virkni á Reykjanesskaga er kaflaskipt og er erfitt að spá fyrir um nákvæma framvindu. Von er á nýjum gögnum síðar í vikunni sem geta varpað skýrara ljósi á ástæður þessarar hrinu.

Vísindaráð mun funda aftur í dag til að leggja frekara mat á þau gögn sem liggja fyrir.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2