fbpx
Miðvikudagur, febrúar 21, 2024
HeimFréttirTækniskólinn vill flytja alla sína starfsemi í Hafnarfjörð

Tækniskólinn vill flytja alla sína starfsemi í Hafnarfjörð

Boltinn liggur hjá bæjarstjóra og ekki búið að útiloka önnur sveitarfélög

Stjórn Tækniskólans hefur farið þess á leit við bæjarstjórann í Hafnarfirði að Hafnarfjarðarbær staðfesti áhuga bæjarins á að skólinn verði staðsettur í Hafnarfirði. Einnig er óskað eftir formlegri afstöðu bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um staðsetningu skólans á lóð í suðurhöfn Hafnarfjarðar sem rætt hefur verið um og sést á meðfylgjandi mynd af hafnarsvæðinu.

Fyrirhuguð staðsetning Tækniskólans á hafnarsvæðinu við Cuxhavengötu, Fornubúðir og Óseyrarbraut.

Óskað er eftir að Hafnarfjarðarbær staðfesti einnig vilja til aðkomu að nýbyggingu Tækniskólans í samræmi við reglur sem gilda um kostnaðarþátttöku ríkis og sveitarfélaga við byggingar framhaldsskóla.

Byggingarnefnd Tækniskólans, í umboði stjórnar Tækniskólans, hefur skoðað möguleika á því að byggt verði nýtt skólahús á höfuðborgarsvæðinu sem hýsi alla starfsemi skólans á einum stað. Tækniskólinn er í dag starfræktur í 9 húsum á 6 stöðum í Reykjavík og í Hafnarfirði, er með rúmlega 270 starfsmenn og yfir 3000 nemendur veturinn 2020-2021.

Leitað var til sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu haustið 2018 og hefur Reykjavíkurborg boðið nokkrar lóðir og Hafnarfjarðarbær mun hafa lýst yfir vilja til að bjóða lóð á iðnaðarsvæðinu á Tjarnarvöllum. Það mun hins vegar hafa verið forsvarsmenn félagsins Flensborg ehf. sem m.a. eiga eignir á hafnarsvæðinu sem sýnt hafa frumkvæði að því að Tækniskólanum yrði boðin lóð á hafnarsvæðinu og bæjaryfirvöld tóku vel í. Það yrði mikil lyftistöng fyrir nýtt hverfi sem þar er í undirbúningi, auk þess sem staðsetningin væri mun hentugri fyrir skólastarfsemi með svo fjölbreytta starfsemi sem Tækniskólinn er.

Samfélagslegur ávinningur gæti náðst fram með fjölgun nemenda í starfs- og tækninámi

Í bréfinu til bæjarstjóra segir að nýbygging og nútímavæðing á húsnæði skólans á einum stað muni gera skólann meira aðlaðandi fyrir nemendur, ekki síst úr grunnskóla, sem standa frammi fyrir vali á framhaldsskólanámi og velja nú að stærstum hluta bóknám umfram starfsnám. Mikill samfélagslegur ávinningur gæti náðst fram með fjölgun nemenda í starfs- og tækninámi, sér í lagi fjölgun nemenda sem koma beint inn eftir grunnskóla.

Ofangreind markmið og áherslur ríkisins eru sögð ríma við þær áskoranir sem stjórnendur Tækniskólans telja að skólinn þurfi að takast á við á næstu árum. Gagngerar endurbætur í húsnæðismálum skólans gegni því mikilvægu hlutverki í þessu sambandi.

Stjórn og framkvæmdastjórn Tækniskólans hafa nú unnið að málinu í rúm 3 ár og fengu verkfræðistofuna EFLU til að annast frumþarfagreiningu og gera grófa kostnaðaráætlun nýbyggingar og kostnaðarmat á núverandi húsnæði. Að neðan fara helstu forsendur sem stuðst er við:

Suðurhöfn, möguleg staðsetning Tækniskólans
Hér mun Tækniskólinn byggja náist um það samningar

Byggt verði nýtt skólahúsnæði Tækniskólans sem rými alla starfsemi skólans á einum stað

 • Húsið verði staðsett á höfuðborgarsvæðinu
 • Staðsetning skólahúsnæðisins verði vel tengd við leiðakerfi almenningssamgangna og umferðarkerfi
Hugmynd að „skólastræti“ sem Tækniskólinn lét vinna.

 „Skólastræti“ – lifandi gata

 • Yfirbyggð göngugata myndi hjarta eða slagæð skólans
 • Skólum Tækniskólans verði raðað umhverfis strætið
 • Skipulag og hönnun verði aðlöguð að starfsemi einstakra skóla og námsgreina
 • Öll sameiginleg aðstaða verði fyrirtaks, svo sem íþróttaaðstaða og útisvæði til hreyfingar, upplýsingamiðstöð, mötuneyti/kaffihús, fyrirlestrasalir og aðstaða fyrir félagslíf
 • Lögð er áhersla á sýnileika, birtu og góða hljóðvist.
 • Auðvelt verði að breyta rýmum, aðlaga og breyta í takt við þróun námsgreina og atvinnulífs
 • Möguleiki sé á annarri skólatengdri starfsemi við ,,strætið“
 • Skólinn verði hjarta samfélagsins í kring og opinn fyrir ýmissi samfélagstengdri starfsemi

Stærðir nýrrar skólabyggingar ásamt aðliggjandi starfssvæðum

 • Áætluð stærð nýs skólahúss er 25-30 þúsund fermetrar í fyrsta áfanga. Gera þarf ráð fyrir rými til framtíðarþróunar
 • Byggt verði á tveim til þremur hæðum
 • Gera þarf ráð fyrir rúmgóðri lóð sem rými framangreint auk rúmgóðs bílasvæðis neðanjarðar og/eða aðgengis að bílastæðahúsi
 • Gera þarf ráð fyrir að til framtíðar verði hægt að reisa nemendagarða við eða í nágrenni nýs skóla

Nemenda- og starfsmannafjöldi

 • Áætlaður nemendafjöldi í nýbyggingu er um 2500-3000 í dagskóla með möguleika á fjölgun í 5000 með auknum húsakosti
 • Áætlaður starfsmannafjöldi 300+

Stjórn og byggingarnefnd Tækniskólans lítur svo á að nýbygging fyrir skólann verði veruleg lyftistöng fyrir starfs- og iðnnám í landinu en langt er um liðið síðan reist hefur verið skólahúsnæði sérhannað fyrir samþættingu starfs-, iðn- og bóknáms með þeim hætt sem fyrirhugað er. Þá yrði slíkur skóli ótvírætt mikill ávinningur fyrir bæjarfélagið.

Undir bréfið skrifa Guðmundur Kristjánsson, formaður byggingarnefndar, Egill Jónsson, formaður stjórnar og Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari.

Málið var tekið fyrir í bæjarráði Hafnarfjarðar í gær þar sem bæjarráð staðfestir vilja til að ganga til viðræðna við byggingarnefnd Tækniskóla Íslands sem miði að samkomulagi um lóð undir nýbyggingu skólans á suðurhöfn Hafnarfjarðar og um aðra aðkomu Hafnarfjarðarbæjar að verkefninu. Bæjarstjóra var falið að vinna áfram að málinu.

Ekkert öruggt

Skv. heimildum Fjarðarfrétta er þó ekkert öruggt í stöðunni um flutning til Hafnarfjarðar og mun það m.a. ráðast af viðbrögðum við bréfinu og hugsanlega öðrum tilboðum t.d. frá Reykjavíkurborg. Það er þó greinilegur vilji hjá skólanum að koma í Hafnarfjörð sem þykir staðsetningin mjög áhugaverð.

Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans

M.a. kom það fram í samtali við Hildi Ingvarsdóttur, skólameistara Tækniskólans að um 21% nemenda skólans kæmu úr Hafnarfirði þó íbúar í Hafnarfirði væru aðeins 13% af íbúum höfuðborgarsvæðisins..

Sagði hún að starf Tækniskólans væri í mikilli þróun og vöxtur væri mikill í greinum eins og pípulögnum sem kenndar væru í byggingu skólans í Hafnarfirði.  Mjög öflug starfsemi væri í skólanum í Hafnarfirði í dag að sögn Hildar en fjölmargir hafa haft áhyggjur af því að starfið myndi minnka eftir að Iðnskólinn í Hafnarfirði sameinaðist Tækniskólanum.

Hildur sagði að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafi sýnt mikinn áhuga á að fá skólann í Hafnarfjörð, sem væri mjög álitlegur kostur og því hefði verið ákveðið að kanna hug Hafnarfjarðar frekar.  Þar með sé alls ekki verið að útiloka önnur sveitarfélög.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2