fbpx
Miðvikudagur, desember 4, 2024
target="_blank"
HeimFréttirSörli hampaði Æskulýðsbikar Landssambands hestamanna

Sörli hampaði Æskulýðsbikar Landssambands hestamanna

Æskulýðsnefnd Landssambands hestamannafélaga veitir á hverju ári Æskulýðsbikar LH, því hestamannafélagi sem þykir hafa skarað framúr með sínu starfi að æskulýðsmálum. Valið byggir á ársskýrslum æskulýðsnefnda félaganna en alls bárust 15 skýrslur.

Í ár var það Hestamannafélagið Sörli sem fékk æskulýðsbikarinn eftirsótta. Afhentu Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir, formaður æskulýðsnefndar LH, bikarinn á landsþingi hestamanna sem haldið var um síðustu helgi. Er Sörli fyrsta félagið til að hljóta þessa viðurkenningu þrisvar en félagið fékk bikarinn 1998 og 2016.

Hér fyrir neðan fylgir brot úr ræðu Dagbjartar en þar er ástæðan fyrir valinu útlistuð.

Úr rökstuðningi æskulýðsnefndar:

„Félagið hefur verið með mjög virkt starf og virðist sífellt vaxa og dafna. Á síðasta starfsári buðu þau upp á 9 staka viðburði og tvær viðburðaraðir. Félagið stóð fyrir alls 25 fjölbreyttum viðburðum og viðburðarröðum fyrir alla aldurshópa ef með eru talin námskeið og æfingar. Þau byrjuðu starfið sitt strax á haustmánuðum og er starfið þeirra orðið heils vetrarstarf. Auk þess að starfrækja félagshesthús standa þau fyrir markvissum æfingum líkt og önnur sérsambönd ÍSÍ. Sjá má í skýrslunni þeirra að þau eru dugleg að bjóða upp á alls kyns nýjungar og hugsa út fyrir kassann. Meðal þess sem okkur fannst athyglisvert er að þau virkja krakkana með sér og eru með sér ráð fyrir þau, settu upp TREC braut þar sem félagsmenn geta æft sig, buðu krökkunum í haustferð á hin ýmsu hrossaræktarbú og síðast en alls ekki síst nýttu þau aðstöðu Landssambandsins og stóðu fyrir fjölskylduhestaferð á Skógarhóla. Félagið telur tæplega 900 félagsmenn og var stofnað á lýðveldisárinu 1944.“ 

„Við erum afar stolt af þessari viðurkenningu og finnst við vel að þessum verðlaunum komin,“ sagði Sigríður Kr. Hafþórsdóttir, framkvæmdastjóri Sörla í samtali við Fjarðarfréttir.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2