fbpx
Föstudagur, október 4, 2024
HeimFréttirSögur eru allt í kringum okkur

Sögur eru allt í kringum okkur

Soroptimistaklúbbur Hafnarfjarðar og Garðabæjar hélt vel heppnað námskeið í sagnalist

Sögur hér, sögur þar, sögur eru allsstaðar. Við gerum okkur bara ekki grein fyrir því, að þær eru allt um kring, hjá okkur öllum.

Sagnaþulir í Hafnarfirði

Hafnarfjörður, bærinn í hrauninu, hefur alltaf verið mikill sögubær og hver einasti klettur og hraunhellir eru bústaðir álfa og huldufólks. Þar hafa búið margir Sagnaþulir, menn og konur, en ein fyrsta sagnakona bæjarins, sem vitað er um, var Ásdís Ólafsdóttir f. 1831-d. 1905. Hún fluttist til Hafnarfjarðar 1902 með yngsta syni sínum Jóhannesi Reykdal, en hann byggði lítið hús handa henni undir Hamrinum. Hún var fædd og uppalin í Reykjadal í Þingeyjarsýslu, var ljósmóðir þar og átti sjálf 15 börn. Hún sagði sögur alla sína ævi og eftir að hún fluttist til Hafnarfjarðar kom það oft fyrir að fína fólkið í Reykjavík sendi mann með hest til að sækja hana til að segja sögur í samkvæmum þeirra. Hún fékk iðulega smjör eða kæfu að launum.  Vaka-Helgafell gaf út bók 1991, „Úr sagnabrunni“ með smá hluta af sögum hennar, en því miður hefur mikið glatast.

Margrét frá Öxnafelli bjó sín síðustu ár í Hafnarfirði og gat bent á mjög marga bústaði huldufólks þar, m.a. kirkju og sagt sögur af þeim.

Erla Stefánsdóttir, sjáandi, var einnig í Hafnarfirði og árið 1993 gerði hún kort yfir bæinn og nágrenni, Huliðsheimakort, þar sem hún staðsetti hinar ýmsu verur og hollvætti í hraundröngum og klettum.

Um nokkurra ára skeið  sá Félag sagnaþula um sagnakvöld í Hellinum í Fjörukránni,  og ein kona úr þeirra hópi, Sigurbjörg Karlsdóttir, konan með rauðu húfuna, hefur sl. 11 ár haft það að atvinnu að ganga með ferðamenn og gesti um miðbæ Hafnarfjarðar og  segja þeim sögur af huldufólki og fleiri íbúum í hrauninu.

Lovísa Christiansen býr í gamla bænum, með huldukonu í kletti á neðri hæðinni, sú hefur 14 fm fyrir sig, í sér rými með rafmagni og hita.  Lovísa hefur tekið þátt í ,,Nordisk fortælleseminar“ síðan 2011, ( f. utan covid ), en það er námskeið sem haldið er í þrítugustu viku ár hvert, til skiptist á Norðurlöndunum. Hér á Íslandi hefur það verið haldið þrisvar sinnum. Þetta hefur verið hin besta skemmtun og hún hefur oft sagt frá þessu og sagt sögur í klúbbnum. Í umræðum á fundi eldri systra í S-HOG  kom upp sú hugmynd að halda námskeið í sagnalist á vegum klúbbsins, til að blása lífi í þessa gömlu listgrein og til að breiða út boðskapinn og það var samþykkt.

Námskeið í sagnalist

Eftir nokkra byrjunarörðuleika sl. haust var námskeiðið síðan haldið í Safnaðarheimili Fríkirkjunnar í Hafnarfirði 25. og 26. febrúar sl. Þetta var helgarnámskeið laugardag og sunnudag frá kl 10-15 og boðið upp á hádegismat á staðnum í umsjón Soroptimistasystra. Einnig komu reyndir sagnaþulir í heimsókn í hádeginu báða dagana og sögðu sögur. Þetta voru Þóra Grímsdóttir, sagnaþula frá Akranesi fyrri daginn og Ingvar Viktorsson, sagnamaður, rithöfundur og fyrrverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði seinni daginn og var gerður góður rómur að máli þeirra.

Þátttakendur í námskeiðinu ásamt leiðbeinendum

Þátttakendur voru 18 í allt, 5 karlmenn og 13 konur á aldrinum 25-90 ára. Á námsskeiðinu var farið yfir ýmislegt hagnýtt fyrir þann sem langar til að segja sögur s.s. upphaf og þróun sagnalistar, siðfræði og höfundarrétt, ýmsar aðferðir, hvað ber að forðast, hvar er hægt að nota sögur og hvernig. Einnig var farið í vinnu þar sem tveir og tveir, sem ekki þekktust unnu saman að gerð frásagnar og að síðustu sögðu allir þátttakendur sögur og rætt var um þær. Listi með ýmsum tillögum að sögum var lagður fram, en ekki tæmandi.

Allir voru sammála um þetta hefði verið mjög fróðlegt og hin besta helgarskemmtun. Flestir vildu að hópurinn myndi hittast aftur og gera eitthvað skemmtilegt s.s. hafa sagnakvöld eða eitthvað sambærilegt.

Leiðbeinandi var Lovísa Chrisiansen, en öll framkvæmd við þennan atburð var sjálfboðavinna systra og allur ágóði rennur óskertur til líknarmála.

Umsjón hafði Sögufjelagið GRÁNA, sem á uppruna sinn á Akureyri á fyrri hluta tuttugustu aldar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2