fbpx
Fimmtudagur, október 3, 2024
HeimFréttirSkipulagsbreytingar á leikskólastarfi í Hafnarfirði - greiðslur lækka fyrir 6 tíma vistun

Skipulagsbreytingar á leikskólastarfi í Hafnarfirði – greiðslur lækka fyrir 6 tíma vistun

Nýverið skilaði starfshópur af sér skýrslu með ellefu aðgerðum sem byggja á ítarlegum greiningum og samtali við hlutaðeigandi aðila leikskólasamfélagsins.

Aðgerðirnar sem farið var í fyrr á árinu fólu m.a. í sér 36 stunda vinnuviku fyrir allt starfsfólk leikskólanna, aukið samræmi milli fyrstu skólastiganna, heimgreiðslur til foreldra og stofn- og aðstöðustyrki til dagforeldra. Samhliða var boðuð endurskipulagning leikskóladagsins og

Í upphafi árs 2023 steig Hafnarfjarðarbær tímamótaskref í eflingu og þróun á leikskólastarfi til framtíðar með ákveðnum aðgerðum og voru um leið boðaðar enn frekari aðgerðir til að svara betur þörfum leikskólastarfsins. Nú hafa þau skref verið stigin og miklar breytingar boðaðar á leikskólastarfi í bænum. Breytingarnar eru í meginatriðum þessar:

• Skipulagi leikskóladagsins verður skipt upp í kennslu og frístundastarf
• Leikskólagjöld fyrir 6 tíma vistun lækka umtalsvert
• Leikskóladagatal með skipulagðri kennslu verður 180 dagar
• Stytting vinnuvikunnar hjá starfsfólki fest niður á ákveðna daga og tímabil
• Boðið upp á sveigjanlegan dvalartíma barna
• Opnunartími leikskóla frá 7:30-16:30

„Tillögurnar sem samþykktar voru taka gildi á vormánuðum og er það trú okkar að þær muni stuðla að því að minnka  álag bæði á  starfsfólk  og börn. Það skiptir okkur máli að auka sveigjanleika fyrir foreldra  og einnig tryggja að nýting leikskólanna sé með sem bestum hætti,“ segir Kristín María Thoroddsen, formaður fræðsluráðs í samtali við Fjarðarfréttir.

Kristín María Thoroddsen, formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðarbæjar

„Það að skipta leikskólanum upp í ákveðin tímabil líkt og gert er í grunnskólanum gefur leikskólunum færi á  betra skipulagi innan árs og dagsins og foreldrar vita þá að hverju þeir ganga. Sú breyting sem gerð var á gjaldskrá leikskólanna gefur foreldrum einnig tækifæri til að lækka gjöld sín en fyrst 6 tímar dagsins lækka umtalsvert. Engin hækkun er á 8 tíma gjaldi eftir breytinguna. Þetta er gert til að koma í veg fyrir það að ef foreldrar þurfa á 8 tíma þjónustu að halda, þá séu þeir ekki að bera aukinn kostnað. Megin markið breytinganna er að efla enn frekar leikskólana, búa til góðar starfsaðstæður en umfram allt búa til framúrskarandi aðstæður fyrir börnin okkar hér í Hafnarfirði“ segir Kristín María.

Tvíþætt starfsemi innan leikskóladagsins – kennsla og frístundastarf

Starfshópurinn skilaði tillögum sínum í lok nóvember 2023 og innleiðing þeirra samþykkt á fundi fræðsluráðs. Í grunninn fela tillögur starfshóps í sér að skilgreina tvíþætta starfsemi innan leikskóladagsins. Annars vegar sem kennslu og hins vegar sem frístundastarf út frá faglegum sjónarmiðum og skipulagi innan dagsins og leikskólaársins. Sú breyting verður gerð á leikskóladagatali að það sé sambærilegt við skóladagatal grunnskóla með 180 kennsludögum á ári og dagana umfram það er starfrækt frístundastarf með öðrum áherslum.

Tillögur starfshópsins

  1. Skipulag leikskóladagsins – starfsemi innan leikskóladagsins og leikskólaársins verður tvíþætt. Annars vegar kennsla og hins vegar frístundastarf
  2. Leikskóladagatal – kennsludagar verða 180 dagar yfir árið. Aðra daga er boðið upp á frístundastarf með sama vistunartíma. Þá daga þurfa foreldrar og forsjáraðilar að skrá börn sín sérstaklega.
  3. Stytting vinnuvikunnar – tillaga um styttingu er þegar komin til framkvæmda. Fagmenntaðir taka út uppsafnaða styttingu á frístundadögum. Skóla- og frístundaliðar taka sína vinnutímastyttingu innan hvers mánaðar.
  4. Sveigjanlegur dvalartími barna – foreldrum stendur til boða sveigjanlegur daglegur dvalartími með að hámarki 42,5 tímum á viku sem er meðaltímafjöldi í íslenskum leikskólum.
  5. Opnunartími leikskóla – opnunartími verður frá kl. 7:30 – 16.30 frá og með hausti 2024 í ljósi þess að nýting tímans frá 16.30 – 17:00 hefur minnkað umtalsvert undanfarin ár.
  6. Gjaldskrá – leikskólagjöld fyrir 8 klukkustundir á dag haldast óbreytt. Leikskólagjöld fyrir 6 klukkustunda vistun á dag lækka umtalsvert eða sem jafngildir 30% af heildarkostnaði af 40 klukkustunda vistun. Markmiðið er að hvetja fjölskyldur til að stytta viðveru barna og minnka þannig álagið á þau. Kostnaður við máltíðir er óbreyttur og áfram verða tekjutengdir afslættir og systkinaafslættir.
  7. Barngildi – að baki hverju stöðugildi í leikskóla í dag eru að meðaltali 8 barngildi þar sem hver árgangur er með mishátt vægi eftir aldri. Viðmið um grunnmönnun verða uppfærð og hvert stöðugildi mun við breytinguna vera með færri barngildi. Markmiðið er að draga úr álagi á börn og styrkja mönnun í leikskólunum. Breytingin hefur ekki áhrif á heildarfjölda barna í leikskólum bæjarins.
  8. Undirbúningstímar – rýni á nýtingu undirbúningstíma. Vægi undirbúningstíma hefur verið aukið til muna undanfarin ár og mikilvægt að skoða hvaða aðferðir og leiðir nýtast best til framþróunar leikskólastigsins.
  9. Endurmenntun leikskólakennara – þrír skipulagðir endur- og símenntunardagar verða fyrir leikskólakennara ár hvert í lok formlegs skólastarfs í júní og/eða í upphafi skólaárs.
  10. Íslenskukennsla fyrir starfsfólk leikskóla með annað móðurmál en íslensku – störf þessa hóps eru leikskólum virkilega dýrmæt og vilji til að styrkja hópinn faglega sem og persónulega með fagtengdum námskeiðum í íslensku á vinnutíma.
  11. Þjálfun og leiðsögn starfsfólks – aukin fagtengd fræðsla til nýliða í störfum í leikskólum Hafnarfjarðar. Rannsóknir sýna að markviss fræðsla, leiðsögn og þjálfun eykur starfsánægju og öryggi strax frá upphafi auk þess sem sýnt hefur verið fram á lægri starfsmannaveltu.

Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að markmið allra þessara aðgerða, bæði þeirra sem komnar eru til framkvæmda og þeirra sem boðaðar eru á nýju ári, sé að auka sveigjanleika innan skóladagsins allt árið um kring og fjölga fagfólki í leikskólum bæjarins.

Aðgerðirnar verða kynntar fyrir foreldrum og forsjáraðilum í upphafi á nýju ári.

Innleiðing á einu leyfisbréfi til kennslu árið 2019 varð m.a. til þess að fleiri hafa síðan þá kosið að starfa innan grunnskólanna og ástæðan sögð starfsumhverfið, sveigjanleikinn og skipulag skólaársins.

Segir jafnframt í tilkynningunni að miklar vonir séu bundnar við að nýtt fyrirkomulag og að aðgerðir snúi þessari þróun við, efli og styrki fagstarf innan leikskólanna enn frekar til framtíðar og að fjölgun verði í hópi fagmenntaðra á mikilvægum mótunarárum í lífi ungra barna.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2