Fræðsluráð skoraði á skólastjórnendur að endurskoða aðstöðu

Málefni barna sem ekki fá að matast með félögum sínum sem eru í mataráskrift í Áslandsskóla

Áslandsskóli

Í vikublaði Fjarðarfrétta sem dreift er í hús á morgun er greint frá því að engin svör eða yfirlýsingar hafi borist frá stjórnendum Áslandsskóla vegna áskorunar umboðsmanns barna í kjölfar kvörtunar nemenda um að þeir sem ekki eru mataráskrift fái ekki að matast með félögum sínum sem eru í mataráskrift.

Skólastjóri hefur ekki svarað erindi Fjarðarfrétta og engin yfirlýsing hafði borist frá fræðsluyfirvöldum þegar blaðið fór í prentun en töluverð fjölmiðlaumfjöllun hefur verið um málið eftir að umboðsmaður barna birti frétt um það á vef sínum www.barn.is

Hafði umboðsmaður barna sent fræðuyfirvöldum, skólastjóra og bæjarstjóra erindi um málið í bréfi 7. júní sl. en fékk engin svör og heldur ekki við ítrekun sem send var í ágúst.

Fræðslustóri svaraði fyrirspurn Fjarðarfrétta í morgun þar sem segir að á fundi fræðsluráðs 26. júní 2018 hafi erindið frá umboðsmanni barna sem fjallar um aðstöðu nemenda sem koma með nesti að heiman til að matast í matsal Áslandsskóla verið tekið fyrir. í svari fræðslustjóra segir:

„Fræðslustjóra var falið að fylgja erindi umboðsmanns barna eftir. Fræðsluráð lagði í bókun sinni áherslu á að stjórnendur Áslandsskóla taki til endurskoðunar aðstöðu nemenda í matarhléum frá og með nýju skólaári með það fyrir augum að tryggja öryggi, svigrúm til samveru og tækifæri til félagslegar samskipta og tengslamyndunar í matarhléum sem og öðrum stundum innan skóladagsins.

Unnið er að lausn málsins og er úrlausnar að vænta á næstu vikum. Við höfum það ávalt að leiðarljósi að ekki verði brotið á rétti barnanna hvorki í þessu máli né nokkrum öðrum innan grunnskóla bæjarins. Erindi Umboðsmanns barna og lausnarleiðir munu fara fyrir næsta fund skólaráðs Áslandsskóla þar sem fulltrúar skólasamfélagsins sitja.

Flestir í mataráskrift

Í Áslandsskóla er matur eldaður á staðnum og almenn ánægja með mat­inn. Þar eru flestir nemendur í matar­áskrift, hlutfallslega fleiri en í nokkrum öðrum grunnskóla í Hafnar­firði.
Borð eru fyrir þessa nemendur í sal og á gangi skólans á jarðhæð en aðstaða er fyrir þá sem ekki eru í áskrift á gangi á annarri hæð. Þar er aðstaða nokkuð góð, hægt að komast í heitt vatn, nýta örbylgjuofn og grill.

Skv. erindi nemandans fá þeir sem ekki eru með mataráskrift ekki að borða niðri með nemendum í mataráskrift og skv. heimildum blaðsins hafa nemendur sem eru í mataráskrift ekki fengið að fara með matinn sinn upp á efri hæðina en þá sé meira verið að koma í veg fyrir að verið sé að fara með matardiskana upp stiga.

Þó nokkur umræða hefur verið á samfélagsmiðlum um málið og mörg spjót beinast að skólastjóranum sem sagður er vera einstrengingslegur þegar kemur að svona málum en svona fyrirkomulag mun ekki vera í öðrum skólum bæjarins.

Bréf umboðsmanns barna

Í bréfi umboðsmanns barna segir meðal annars:

Í 2. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013, kemur fram sú meginregla að tryggja skuli öllum börn­um þau réttindi sem samningurinn kveður á um, án mismununar af nokkru tagi og án tillits til trúarbragða, skoðana, uppruna, félagslegrar stöðu, eigna, fötlunar eða annarra aðstæðna barns eða foreldris þess. Þá er það önnur meginregla Barnasáttmálans að það sem er barni fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar opinberir aðilar gera ráðstafanir sem varða börn, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans.

Ber til þess að líta að ýmsar ástæður geta legið að baki því að barn sé ekki í mataráskrift í skóla svo sem vegna trúar- eða lífsskoðana. Eins geta þar legið að baki heilsufarsástæður eins og mataróþol eða matarofnæmi og þá eru dæmi um að fjárhagsstaða foreldra komi í veg fyrir að nemendur geti verið í mataráskrift. Að mati umboðsmanns barna felst bein mismunun í ráðstöfun þar sem nemendum er gert að sitja í mismunandi rýmum skóla í matarhléi eftir því hvort þeir eru í mataráskrift eða ekki. Samkvæmt upplýs­ingum umboðsmanns barna er þetta fyrirkomulag eingöngu við lýði í Áslands­skóla en ekki öðrum grunnskólum Hafnar­fjarðarbæjar.

Í 2. gr. grunnskólalaga. nr. 91/2008, segir að hlutverk grunnskóla sé að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Þá segir í sömu grein að starfshættir grunnskóla skulu mótast af m.a. um­­burðarlyndi, umhyggju, sáttfýsi og virð­ingu fyrir manngildi. Þá skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.

Þá segir jafnframt í 3. mgr. 24. gr. grunnskólalaga að starfshættir grunn­skóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna m.a. uppruna, búsetu, stéttar, trúarbragða, heilsufars, fötlunar eða stöðu að öðru leyti.

Í aðalnámsskrá grunnskóla segir að allt skólastarf eigi að stuðla markvisst að velferð og vellíðan barna og ungmenna sem verja þar stórum hluta dagsins. Þá þurfi að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýms­um hliðum.

Þá er það jafnframt sérstaklega áréttað í aðalnámsskrá að skólar þurfi að leggja áherslu á „uppeldis- og félags­legt gildi máltíða“. Af því leiðir að grunnskólum ber að skipuleggja matar­hlé þannig að öllum nemendum skólans sé tryggður tími og svigrúm til að nærast og jafnframt veitt nauðsynleg tækifæri til félagslegra samskipta og tengsla­myndunar.
Með vísan til framangreinds óskar um­boðsmaður barna eftir því að Hafnar­fjarðarbær bregðist skjótt við og taki til skoðunar hvernig bæta megi skipulag og aðstöðu Áslandsskóla þannig að skólinn geti tryggt öllum nemendum þann rétt til samverustunda í matarhléum sem leiðir af ákvæðum aðalnámsskrár, grunn­skólalaga og Barnasáttmálans.

Ummæli

Ummæli