Samhljóða ályktun í bæjarstjórn um Reykjanesbraut

Skorað á ráðherra og þingmenn að tryggja fé til framkvæmda

Reykjanesbraut þrengist á hættulegum stað við kirkjugarðinn

Íbúar Hafnarfjarðar eru orðnir langþreyttir á aðgerðarleysi Vegagerðarinnar við tvöföldun Reykjanesbrautar í gegnum Hafnarfjörð. Brautin þrengist á hættulegum stað við kirkjugarðinn og er einföld suður fyrir Straumsvík. Bæjaryfirvöld hafa þrýst á að brautin verði tvöfölduð a.m.k. frá Kaldárselsvegi og að mislægum gatnamótum við Krýsuvíkurveg auk þess sem þrýst hefur verið á lagfæringar á gatnamótum við Lækjargötu og einnig við Fjarðarhraun.

Einhugur var í bæjarstjórn um eftirfarandi áskorun til ráðherra og alþingismanna:

„Bæjarstjórn Hafnarfjarðar lýsir yfir miklum vonbrigðum með að framkvæmdir við Reykjanesbraut séu ekki hafnar og að ekki sé gert ráð fyrir þeim í nýjustu útboðsverkefnum Vegagerðarinnar. Bæjarstjórn tekur undir fyrirspurnir bæjarstjóra Hafnarfjarðar til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þar sem krafist er skýringa á því.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar ítrekar áhyggjur af þeirri miklu bílaumferð sem í dag fer um einfalda kafla brautarinnar og tvenn gatnamót á henni, við Lækjargötu og Kaplakrika. Sá vegkafli sem enn á eftir að tvöfalda og umrædd gatnamót eru fyrir löngu orðnir miklir farartálmar og þeim fylgir síaukin slysahætta. 

Mikil fjölgun ferðamanna á undanförnum árum sem fara í gegnum Leifsstöð er fordæmalaus. Sú staðreynd ásamt mikilli fjölgun íbúa á Reykjanesi og í Hafnarfirði hefur leitt til þess að umferð um Reykjanesbraut hefur margfaldast. Þetta álag á einfalda brautina í gegnum Hafnarfjörð hefur leitt til mikilla umferðartafa á þeim kafla og sífellt fleiri slysa. Er því ljóst að ekki er hægt að bíða lengur með að ráðast í tvöföldun hennar á þeim kafla. 

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar krefst þess að ráðherrar og alþingismenn sjái til þess að í nýrri og endurskoðaðri vegaáætlun sem lögð verður fram nú á haustþingi, verði fjármagn tryggt til að ráðast í þessar brýnu framkvæmdir á Reykjanesbrautinni í gegnum Hafnarfjörð. Skilvirkar samgöngur á svæðinu og öryggi vegfarenda er í húfi. Ljóst er að við núverandi ástand verður ekki unað lengur.“