fbpx
Sunnudagur, september 8, 2024
HeimFréttirPólitíkRáðherra vísar kæru frá vegna aðkomuleysis en vill hefja frumkvæðisathugun

Ráðherra vísar kæru frá vegna aðkomuleysis en vill hefja frumkvæðisathugun

Kaplakrikamálið virðist ætla að vera Hafnarfjarðarbæ erfitt

Velferðarráðuneytið hefur lokið umfjöllun um tvær stjórnsýslukærur fimm bæjarfulltrúa í minnihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar sem báðar tengjast ákvörðun meirihlutans um knatthús í Kaplakrika. Heilbrigðisráðherra, Svanhvíti Svavarsdóttur var falið að úrskurða í þessum málum eftir að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lýsti sig vanhæfan á grundvelli stjórnsýslulaga til að fjalla um þau þar sem Ágúst Bjarni Garðarsson formaður bæjarráðs var aðstoðarmaður hans.

Svanhvít Svavarsdóttir

Í stjórnsýslukærunum var farið fram á ógildingu ákvarðana bæjarstjórnar varðandi málið og einnig frestun réttaráhrifa ákvarðana meðan málið væri til meðferðar.

Hvað var kært?

Fulltrúar flokka í minnihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar kærðu þá ákvörðun sem keyrð var í gegn með meirihlutavaldi, fyrst í bæjarráði og svo í bæjarstjórn, um að bærinn falli frá áætlunum um byggingu knatthúss í Kaplakrika og kaupi þess í stað aðrar eignir á svæðinu, standist sveitarstjórnarlög þar sem fjölmargir annmarkar séu á málatilbúnaði og meðferð, auk þess sem vafi leiki á því að þær standist 65. gr. sveitarstjórnarlaga um ábyrga meðferð fjármuna af hálfu kjörinna fulltrúa.

Þá kærir minnihlutinn þá ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar að samþykkja viðauka við fjárhagsáætlun sem varðaði m.a. tilfærslu á fjármunum vegna breyttra áforma meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um byggingu knatthúss í Kaplakrika.

Fyrri ákvörðunin hafi falið í sér breytingu á stefnu sveitarfélagsins þannig að í stað þess að 720 m. kr. yrði varið í byggingu knatthúss hafi verið ákveðið að kaupa eignir af Fimleikafélagi Hafnarfjarðar í samræmi við rammasamkomulag þess efnis fyrir 790 m. kr.

Hafði þegar verið greiddar 100 m. kr. til FH áður en viðaukinn var samþykktur.

Meginniðurstöður

Niðurstaða velferðarráðuneytisins er sú að þegar ákvörðun er tekin af fjölskipuðu stjórnvaldi verði ekki talið að minnihluti þess teljist hafa svo beina, verulega, sérstaka og lögvarða hagsmuni af ákvörðuninni að þeir teljist aðilar málsins í skilningi stjórnsýsluréttar. Af þessari ástæðu er báðum kærum kærenda, sem eru aðal- og varafulltrúar í minnihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, vísað frá.

Fjallað er um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa rammasamkomulags við Fimleikafélag Hafnarfjarðar í úrskurði ráðuneytisins. Niðurstaðan er sú að ákvæði 2. mgr. 114. gr. sveitarstjórnarlaga um frestun réttaráhrifa verði ekki túlkað svo rúmt að það feli í sér heimild til að fresta réttaráhrifum gerðra samninga. Kröfu um frestun réttaráhrifa er því hafnað.

Tilefni til athugunar á grundvelli ákvæðis um frumkvæðiseftirlit

Fram kemur í niðurstöðum beggja stjórnsýslukæranna það mat heilbrigðisráðherra að tilefni sé til að taka málsmeðferð Hafnarfjarðarkaupstaðar til athugunar á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga um frumkvæðiseftirlit.

Aðildarleysi minnihlutans

Það vekur sérstaka athygli að það er túlkun ráðuneytisins að minnihluti bæjarstjórnar hafi ekki lögvarða hagsmuni í málinu en í 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarmála segir að aðilum máls sé heimilt að kæra til ráðuneytis ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr. laganna.

Við túlkun á aðild lítur ráðuneytið til almennra sjónarmiða stjórnsýsluréttar en til grundvallar er lagt að um sé að ræða þann sem ákvörðun er beint til eða sem málið varðar beint að öðru leyti. Horft er til þess hvort viðkomandi aðili eigi beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinni hagsmuna að gæt af stjórnvaldsákvörðun.

Telur ráðuneytið að minnihluti sveitarstjórnar hafi ekki þessa hagsmuni og í úrskurðinum segir m.a.: „Þegar tekin er stjórnvaldsákvörðun af fjölskipuðu stjórnvaldi um réttindi eða skyldur aðila, m.a. um samninga við þriðja aðila, verður ekki talið að minnihluti hins fjölskipaða stjórnvalds teljist hafa svo beina, verulega, sérstaka og lögvarða hagsmuni af ákvörðuninni að þeir teljist vera aðilar málsins í skilningi stjórnsýsluréttar.“

Því vísaði ráðuneytið kærunum frá.

Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 037/2018
Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 036/2018

Yfirlýsing vegna úrskurðar ráðherra

Fulltrúar þriggja flokka í bæjarstjórn og varafulltrúar þeirra hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna úrskurðar ráðherra:

Málsmeðferð varðandi uppbyggingu í Kaplakrika einkennst af flýti, upplýsingaskorti, samráðsleysi og eftiráskýringum.

Úrskurður heilbrigðisráðherra staðfestir að málsmeðferð meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar gefi tilefni til að málið verði tekið til nánari skoðunar á grundvelli 112 gr. sveitarstjórnalaga sem kveða á um frumkvæðisathugun.

Í því felst að rökstuðningur Hafnarfjarðarbæjar og andmæli við kærum bæjarfulltrúa í minnihluta er ekki nægjanlegur til að fella málin niður.

Vert er að taka fram að enn hefur ekki verið sýnt fram á í hvað 170 milljónir sem greiddar hafa verið til FH hafa farið og fyrirspurnum okkar frá því í ágúst hefur ekki öllum verið svarað með fullnægjandi hætti. Það er skylda okkar sem kjörinna fulltrúa að fylgjast grannt með fjármálum sveitarfélagsins og höfum við því tekið ákvörðun um að leita liðsinnis Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga til að knýja á um svör.

Áður en rammasamkomulagið sem liggur til grundvallar kærunum og væntanlegri frumkvæðisathugun var samþykkt hafði bærinn boðið út byggingu nýs knatthúss. Því ferli lauk með höfnun allra tilboða og kæru lægstbjóðanda. Úrskurður féll nú í nóvember í málinu, á þá leið að bærinn er skaðabótaskyldur, auk þess sem gerðar voru athugasemdir við málsmeðferð bæjarins sem ekki hafi staðist lög um opinber innkaup.

Allt ofangreint styður með afgerandi hætti þær ábendingar okkar að málsmeðferð varðandi uppbyggingu á Kaplakrikasvæðinu hefur einkennst af flýti, upplýsingaskorti, samráðsleysi og eftiráskýringum, og því fyllsta tilefni til að endurskoða málið í heild sinni.

Enn er ósvarað þeirri spurningu hvort málsmeðferðin standist lög um ábyrg fjármál sveitarfélaga. Væntanleg frumkvæðisathugun mun leiða það í ljós.

  • Adda María Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
  • Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
  • Guðlaug Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi Bæjarlistans
  • Jón Ingi Hákonarson, bæjarfulltrúi Viðreisnar
  • Birgir Örn Guðjónsson, varabæjarfulltrúi Bæjarlistans
  • Sigrún Sverrisdóttir, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
  • Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
  • Vaka Ágústsdóttir, varabæjarfulltrúi Viðreisnar

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2