fbpx
Miðvikudagur, október 9, 2024
target="_blank"
HeimFréttirPólitíkNiðurgreiðsla skulda víkur fyrir kosningaloforðum

Niðurgreiðsla skulda víkur fyrir kosningaloforðum

Um fjárhagsáætlun meirihlutans

Fjárhagsætlun sú sem samþykkt var af fulltrúum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar gerir ráð fyrir gífurlegum fjárfestingum á næstu fjórum árum.

Geta bæjarins til að ráðast í þær fram­kvæmdir byggir fyrst og síðast á sölu íbúða- og atvinnulóða sem fjárfest var í á árunum fyrir efnahagshrun og fjármagnað var að stærstu leyti með lántöku. Nú þegar loksins hafa skapast aðstæður í íslensku efnahagslífi til að koma þessum eignum í verð er það ekki lengur á stefnuskrá meirihlutaflokkanna að nýta söluandvirðið til niðurgreiðslu þeirra sömu skulda eins og bæjarbúum var kynnt fyrir síðustu kosningar. Þess í stað eru sett fram loforð um stórfelldar fjárfestingar upp á tugi milljarða, m.a. í nýjum íþróttamannvirkjum. Á sama tíma er ætlunin að fjármagna fjölgun félags­legra íbúða með lántöku.

Umhverfismálin áfram afgangsstærð í Hafnarfirði

Tillögur fulltrúa minnihlutans um fjármögnun verkefna sem tilgreind eru í tillögu að endurskoðaðri umhverfis- og auðlindastefnu hlutu ekki hljóm­grunn hjá núverandi meirihluta sem taldi nóg að vísa málaflokknum ófjár­mögnuðum til frekari umræðu á næsta kjörtímabili. Í því sambandi er rétt að benda á að málaflokkurinn hefur í reynd verið ófjármögnuð afgangsstærð hjá meirihlutaflokkunum Bjartri fram­tíð og Sjálfstæðisflokki það sem af er þessu kjörtímabili sem nú sér fyrir endann á.

Skortur á stefnu­mörkun í málefnum barnafjölskyldna

Með framlagðri fjárhagsáætlun undirstrikar núverandi meirihluti enn og aftur skort á vilja til að marka skýra stefnu um uppbyggingu í grunnþjónustu bæjarins, m.a. í málefnum leik- og grunnskóla. Þrátt fyrir ítrekaðar tillögur minnihlutans um að Hafnarfjarðarbær setji sér skýr markmið um lækkun inn­ritun­­ar­aldurs barna á leikskóla líkt og fjölmörg sveitarfélög hafa gert síðustu ár og háværar kröfur hafa verið um frá for­eldrum ungra barna hafa meirihluta­flokkarnir í Hafnarfirði haft það á stefnuskrá sinni að efla frekar þjónustu dagforeldra. Við í minnihlutanum lögð­um fram tillögu að breytingum á þeirri fjárhagsáætlun sem hér er til afgreiðslu sem m.a. gerðu ráð fyrir því að ráðist yrði í uppbyggingu ungbarnaleikskóla í Hafnarfirði og að bærinn myndi leggja sitt af mörkum til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólagöngu. Tillög­urnar fengu enga efnislega með­ferð í stjórnsýslu bæjarins á milli umræðna og var þeim á endanum vísað frá af fulltrúum meirihlutans.

Tillögu að sáttaleið í uppbyggingu íþróttamála hafnað

Í framhaldi af framkominni tillögu um forgangsröðun framkvæmda í íþrótta­málum og harðorðum athuga­semdum frá fulltrúum íþróttafélaganna og foreldra iðkenda um skort á rök­stuðn­ingi fyrir röðun framkvæmda lögð­um við í minnihlutanum til að fram færi heildstæð greining á þörf fyrir upp­byggingu slíkra innviða innan bæjar­félagsins. Vildum við með því leggja grunn að vandaðri ákvarðanatöku og aukinni sátt um röðun verkefna, með það að leiðarljósi að tryggja jafnræði barna hvað snertir aðgengi að aðstöðu til íþróttaiðkunar óháð búsetu innan svæðisins. Var tillagan m.a. sett fram í ljósi framkominna fullyrðinga hags­munaa­ðila um að tillaga í greinargerð með fjárhagsáætlun hafi byggt á tak­mörkuðum upplýsingum um forsendur samþykktrar forgangsröðunar ÍBH, forgangsröðun sem bæjarstjórn er ætlað að hafa til hliðsjónar við töku ákvarðana um framkvæmdir í málaflokknum. Það eru okkur í minnihlutanum mikil von­brigði að ekki hafi verið fallist á þessa tillögu að bættri málsmeðferð.

Mikilvægt er að bæjarbúar og allir sem hafa hagsmuni af framgangi ein­stakra verkefna sem sett eru fram í fjárhagsáætlun í aðdraganda kosninga séu meðvitaðir um þá miklu óvissu sem er um framgang einstakra verkefna sem aðeins eru tilgreind í langtímaáætlun og verða alltaf háð fjölda ytri þátta sem einstaka sveitarfélög hafa lítil eða jafnvel engin áhrif á, s.s. um almenna afkomu sveitarstjórnarstigsins. Það getur því skipt miklu máli í hvaða röð ráðist er í verkefni og eðlilegt að slíkar ákvarðanir fái vandaða og góða meðferð og þannig sé reynt að skapa um þær sem mesta og besta sátt. Af viðbrögðum fulltrúa meirihlutans við tillögum okkar má ljóst vera að ekki sé áhugi á að vinna að ákvarðanatöku á þessu sviði með það fyrir augum.

  • Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar
  • Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstri grænna
  • Adda María Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar
  • Margrét Gauja Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar.

Greinin birtist í Fjarðarfréttum, prentaðri útgáfu 14. desember 2017

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2