fbpx
Laugardagur, október 5, 2024
HeimFréttirÓljóst hvaða áhrif breyting á frístundastyrkjum hefur

Óljóst hvaða áhrif breyting á frístundastyrkjum hefur

Gögn úr bókhaldskerfi bæjarins mjög misvísandi

Á fundi fræðsluráðs sl. miðvikudag voru lögð fram svör við fyrirspurnum fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna sem óskuðu eftir samantekt á breytingum á frístundastyrkjum sem urðu þann 1. nóvember sl. Lagðar voru fram eftirfarandi spurningar:

  1. Hvaða breyting hefur orðið á upphæð styrkjanna og afgreiðslu?
  2. Hversu margir eru að nýta sér styrkina nú samanborið við sama tíma árið 2016?
  3. Hversu margir eru að nýta styrkina í fleiri en eina íþróttagrein og hverju munar þar frá því sem áður var?

Í svari sem lagt var fram kom fram að skoðaðar hafi verið styrkfærslur sem úthlutað var á ákveðnu tímabili fyrir breytingu annars vegar (nóvember og desember 2015 og janúar 2016) og hins vegar eftir breytingu 1. nóvember 2016 (nóvember og desember 2016 og janúar 2017) og fjárhæðir og fjöldi barna borinn saman.

Kemur fram að heildar upphæð niðurgreiðslna hafi hækkað úr 16,8 milljónum kr. í 21,8 millj. kr. eða um 29,8%.

Önnur gögn sem notuð eru í svarinu virðast ekki vera marktæk enda sýna þau gríðarlegan mun á milli mánaða, jafnvel yfir fimmfaldan mun, sem ekki er hægt að skýra með öðru móti en að bókun styrkjanna í bókhaldi bæjarins sé ekki í samræmi mánaðarlegar niðurgreiðslur.

Einstaklingum fækkar en niðurgreiðslur hækka?!

Þannig má sjá á grafi að í desember séu aðeins um 200 börn sem njóti niðurgreiðslna í desember en um 1.000 í janúar. Ef þessir þrír mánuðir eru bornir saman þá fækkar þeim sem njóta niðurgreiðslna um nálægt 15% á sama tíma og fjárhæðin hækkar um tæp 30%.

Mun færri í fleiri en einni tómstund

Helsta gagnrýnin er á breytingunum 1. nóv. sl. þegar styrkupphæð var hækkuð en ekki var lengur hægt að fá styrk í fleiri en eina grein. Þannig hækkaði niðurgreiðsla til þeirra sem voru í einni grein en lækkaði fyrir þá sem voru í tveimur eða fleiri greinum.

Skv. svörunum sem lögð voru fram fækkar þeim sem stunda fleiri en eina grein gríðarlega og fjöldi þeirra er aðeins þriðjungur af því sem áður var, sé eitthvað að marka þessar tölur.

Skráningum fjölgar um 5,1% milli ára

Alls voru 5.860 skráningar árið 2016 og fjölgaði þeim um 5,1% á milli ára. Á bak við þetta eru 3.311 börn sem er um 73% af öllum börnum 6-16 ára í Hafnarfirði sem möguleika áttu á niðurgreiðslu. Þess ber þó að geta að 17 ára börn bættust við 1. nóvember sl. og raunhlutfall því eitthvað lægra.

FH með flestar skráningar

Fimleikafélag Hafnarfjarðar er með flestar skráningar, 1.820 árið 2016 en Haukar komu næstir með 1.266 skráningar en Björk er í þriðja sæti með 1.013 skráningar.

Það vekur eftirtekt að þegar heildar greiðslur vegna þessara skráninga eru bornar saman þá fengu Haukar 20.476 kr. á hverja skráningu, FH 16.101 kr. og Björk fékk 9.262 kr. á hverja skráningu.

Fyrir breytinguna 1. nóvember voru greiðslur til 6-12 ára 1.700 kr. á mánuði en 2.250 kr. til 13-16 árs. Eftir 1. nóvember eru greiðslurnar hins vegar 3.000 kr. á mánuði en aðeins er greitt fyrir eina grein.

Mismuninn er ekki hægt að skýra með þessari breytingu en þar sem tölurnar eru sóttar í bókhald bæjarins má ætla að þegar skráð er fyrir nýtt tímabil í janúar séu bókfærðar greiðslur fyrir 6 mánuði.

Það er a.m.k. greinilegt að Hafnarfjarðarbær hefur ekki yfir að ráða tölfræði sem sýnir skiptingu niðurgreiðslna rétt.

85 eða 71 milljón kr. í niðurgreiðslum

Ef skoðað er yfirlit yfir heildarniðurgreiðslur kemur í ljós að þær námu 85.283.191 kr. árið 2016 en skv. upplýsingum Geirs Bjarnasonar íþrótta- og tómstundafulltrúa var útstreymi úr sjóðum bæjarins um 71 millj. kr. og því óútskýrður munur upp á 14 milljónir kr. sem getur stafað af því að heildarniðurgreiðsla einstaklings er bókuð strax en ekki mánaðarlega.

Bókað á víxl

Á fundi fræðsluráðs létu fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna bóka:

„Samkvæmt tillögum starfshóps sem skipaður var haustið 2014 og skilaði niðurstöðum vorið 2016 voru frístundastyrkir hækkaðir og aldursviðmið sömuleiðis hækkuð í 18 ár.
Það var visst áhyggjuefni að ekki gæfist lengur kostur á að fá frístundastyrki fyrir fleiri en eina grein en með hækkun á styrkjum stóðu vonir til að flestir fengju þó notið styrkja og gætu jafnvel dreift upphæðinni á fleiri en eina íþrótt. Það eru því vonbrigði að sjá þessar niðurstöður þar sem í ljós kemur að mun færri eru að nýta frístundastyrki sem stunda fleiri en eina íþrótt.
Í ljósi þessara niðurstaðna förum við fram á að reglurnar og framkvæmd þeirra verði tekin til endurskoðunar.“

Fulltrúar Bjartrar framtíðar létu þá bóka:

„Það kemur fram í svari við fyrirspurninni að mun fleiri börn eru að nýta frístundastyrkinn en undanfarin ár og er það sérlega ánægjulegt.“

Þegar svörin sem lögð voru fyrir fundinn eru skoðuð kemur greinilega í ljós að það eru færri sem nýta frístundastyrkinn en áður á samanburðartímabilinu og munar þar um 15% eins og kemur fram hér að ofan. Hins vegar nýttu um  8,6% fleiri einstaklingar frístundastyrkinn 2016 en 2015 en þá ber að geta að breytingarnar urðu ekki fyrr en 1. nóvember og þá bættist einn árgangur við. Ítrekað er að Hafnarfjarðarbær þarf að skoða tölfræði sína nánar áður en hægt er að fullyrða um það hver raunveruleg breyting er.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2