„Vinir sem þú hefur ekki hitt“

Frá sýningunni í Ásvallalaug

Sýningin „Friends you haven’t met,“ sjónræn frásögn um ungt fólk frá vinabæjunum Frederiksberg í Danmörku og Hafnarfirði, stendur yfir í anddyri Ásvallalaugar en sýningin verður opin til 23. júní.

Í dag, fimmtudag, kl. 17 verður sýningin formlega opnuð og munu formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar og sendiherra Danmerkur á Íslandi opna sýninguna formlegaog ungt fólk sem tekur þátt í sýningunni flytur tónlistaratriði.

Á sýningunni hitta gestir norræn ungmenni á uppáhaldsstað þeirra í þeirra heimabæ og þau segja okkur frá sjálfum sér, draumum og hverju þau hafa mestan áhuga á þessa stundina. Hvernig færir það þeim gleði og tilfinningu fyrir frelsi? Vinabæirnir tveir eru mjög ólíkir en hins vegar eiga ungmennin margt sameiginlegt.

Sýningin var fyrst opnuð í ráðhúsinu í KU.BE, menningarhúsinu í Frederiksberg 2. október sl. og stóð til 1. nóvember.

Þátttakendur í verkefninu eru: Erik, Christoffer, Zoé, Isabella, Dicte, Karen, Gabriela, Tómas, Theodór, Ágúst, Sigurrós og Elísa.

Verkefniið er styrkt af Frederiksberg Fonden og Frederiksberg Kommune.

Hugmynd, hönnun og ljósmyndun: Shazia Khan og Mette Lauritzen

70 ára vinabæjaafmæli á árinu

Árið 2021 eiga Hafnarfjörður og Frederiksberg 70 ára vinabæjaafmæli. Hafnarfjörður gerðist aðili að norrænni vinabæjakeðju árið 1951 með Frederiksberg í Danmörku, Uppsala í Svíþjóð, Bærum í Noregi og Hämeenlinna í Finnlandi.

Samvinnan á milli bæjanna byrjaði eftir heimsstyrjöldina síðari þegar þeim fannst þörf á að styrkja sambandið á milli Norðurlandaþjóðanna. Í dag leggja þessir vinabæir aðallega áherslu á að deila reynslu sín á milli, menningarleg samskipti og íþróttir.

Frederiksberg er 104 þúsund manna sveitarfélag inni í miðri Kaupmannahöfn og er hluti af því sem kallast Stór-Kaupmannahöfn. Stærð sveitarfélagsins er aðeins 8,7 ferkílómetrar og er Frederiksberg þéttbýlasta sveitarfélag í Danmörku.

Í sveitarfélaginu eru stór græn svæði, Søndermarken og Frederiksberg Have og þar má finna margar merkar menntastofnanir eins og Copenhagen Business School, Det Kongelige Danske Misikkonservatorium og TEC, Københavns Universitet.

25 manns sitja í borgarstjórn Frederiksberg.

Fróðleikur um Frederiksberg: https://visitfrederiksberg.dk/

Ummæli

Ummæli