Verðlaunasmásagan Snjókorn sem taka sinn tíma

Verðlaunasmásaga eftir Kolbrúnu Garðarsdóttur

Kolbrún Garðarsdóttir

Þegar við nálguðumst húsið mitt aftur hraðaði Slaufa Sól ferðina og byrjaði að hlaupa. Hana langaði inn. Ég stoppaði og horfði á húsið. Allir gluggarnir voru upplýstir og ég gat heyrt skvaldrið í fólkinu, hláturinn og tónlistina. Óróleikinn geislaði frá gráa húsinu. Mig langaði ekki inn alveg strax. Ég togaði aðeins í ólina og hélt í áttina að göngustígnum frá húsinu og út úr götunni. Slaufa Sól hlýddi ekki alveg strax en virtist svo sætta sig við ákvörðun mína um að labba aðeins lengur og tiplaði léttilega við strigaskóna mína. Snjókorn byrjuðu að detta af himnum, eitt af öðru. Þau voru stór og klunnaleg og féllu ofurhægt til jarðar. Ég gekk á milli þeirra á meðan Slaufa Sól hoppaði um af kæti og reyndi að glefsa þau í sig. Eftir örstuttan spöl kom ég að leikvellinum, um­­kringdan hljóðlátum trjám sem geymdu minningar af hlæjandi krökkum að vega salt á sólríkum sumardögum og öðrum nokkrum mánuðum seinna, á fleygiferð niður bröttu grasbrekkuna á snjósleða. Kannski mundu þau eftir krökkum eins og mér, sem þrá kyrrðina og þögnina. Ég settist niður í aðra róluna og það ískraði aðeins í henni þegar hún vaggaði örlítið fram og til baka. Ég andaði djúpt að mér friðsæla desemberloftinu. Kuldinn beit mig eilítið í kinnarnar. Þegar rólan loks þagnaði var eins og heimurinn hafi stoppað. Allir höfðu hætt að hreyfa sig nema ég og Slaufa Sól, sem hafði fundið kyrrðina í andrúmsloftinu og sest niður á afturfæturna við hliðina á mér. Mér fannst ég vera einn í heiminum. Í smá stund horfði ég á stóru snjókornin svífa niður og bráðna á jörðinni. Þögn þeirra var dáleiðandi.

„Hvað heldurðu að þau heiti?“

Röddin ómaði frá hinni rólunni. Hissa leit ég til hliðar á strákinn sem sat skyndilega við hliðina á mér. Ég starði á hann orðlaus, ég gat svo svarið að það var enginn á leikvellinum þegar ég kom þangað. Allt hafði verið svo hljótt, hvernig hafði hann læðst upp að mér?
„Ég held að öll snjókorn hljóti að hafa nöfn, eitthvað sem skilur þau að frá hinum.” Ég starði á hann og blikkaði augunum nokkrum sinnum eins og bilaður ljósastaur en náði á endanum að ýta nokkrum orðum út á milli kaldra varanna. „Er ekki alltaf sagt að ekkert snjókorn sé eins?“

Hann fylgdist með einu sem hafði verið of djarft og svifið rétt fyrir framan kjaftinn á Slaufu Sól sem gleypti það í sig.

„Það gæti verið. Ég vil trúa að þau beri öll einhver nöfn. Eitthvað sem segir okkur að þau séu ekki bara sama vatnið, heldur hver sinn eigin litli líkami sem ferðast niður á sinn máta.“
Ég skildi þetta ekki alveg, þar sem mér fannst snjókornin vera í raun sama vatnið, en strákurinn virtist trúa ákaft á það sem hann sagði svo ég sagði ekki neitt. Í staðinn horfði ég í fölu augun hans og spurði: „Hvað er þitt?“ „Frosti,“ sagði hann og brosti lítillega. „Kallaðu mig Frosta. Þá líður mér eins og ég sé einn á meðal þeirra.“

„Frosti.“ Ég eygði skörpu og fölu andlitsdrætti hans. „Það hentar þér.“

Þetta virtist hafa þóknast honum, því við mér blasti bros sem ljómaði af þakklæti og ánægju. Hann beygði sig niður til þess að klappa Slaufu Sól mjúklega á kollinn. Hún lét eins og hún tæki ekki einu sinni eftir því, sem var einkennilegt því vanalega kom Slaufu Sól illa saman við ókunnuga. Það var þá sem ég tók eftir að strákurinn var ekki í úlpu. Frosti sat í rólunni í miðjum desember einungis í þunnri peysu. Við sátum í þögn í örlitla stund. Gufuský brutust frá vörum mínum. Ég tók eftir að þau gerðu það ekki frá vörum Frosta.
Hann benti á eitt snjókorn sem fikraði sig varlega í gegnum loftið niður á jörðina. Það féll hægar en hin í kring.

„Af öllum snjókornum sem ég hef séð, er þetta mitt uppáhalds.“
Ég hugsaði um hvernig hann gæti átt sér uppáhalds s

jókorn. Ég hugsaði um hvernig hann mundi eftir öllum snjó­kornum sem hann hafði séð.
„Það tekur sinn tíma,“ sagði ég.

„Nákvæmlega“. Ég leit til hliðar, aðeins til þess að finna róluna tóma við hliðina á mér, hangandi hreyfingarlaus. Aftur var ég einn í heiminum.

Kolbrún Garðarsdóttir,
sigurvegari í smá­sagnakeppni grunnskólanna í Hafnar­firði í 8.-10. bekk vorið 2021 er Kol­­brún var í 10. bekk í Hraunvallaskóla.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here