fbpx
Fimmtudagur, febrúar 22, 2024
HeimÁ döfinniNýútskrifaður Arnór sýnir Án djóks í Gaflaraleikhúsinu

Nýútskrifaður Arnór sýnir Án djóks í Gaflaraleikhúsinu

Arnór Björnsson er 24 ára Hafnfirðingur, leikari, höfundur og leikstjóri sem er nýútskrifaður úr leikaranámi við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands.

Hann mun sýna verkið Án djóks í Gaflaraleikhúsinu 5. mars og verður það í síðasta sinn sem verkið verður sýnt en það var útskriftarverk hans í Listaháskólanum. Er Arnór bæði höfundur og leikari.

Arnór hefur verið með leiklistarveiruna síðan hann var lítill. Hann hefur tekið þátt í fjölda leiksýninga, framleitt og leikstýrt sjónvarpsseríu, skrifað bæði leikrit, þætti og bók.  Nú er Arnór nýútskrifaður og er kvíðinn út af takmörkuðum skeggvexti sínum. Því hvernig á hann að fá Netflix víkingahlutverk ef hann er ekki með skegg?

Mega búast við gleði, glensi og gríni

Hverju mega áhorfendur búast við?

„Aðallega gleði, glensi og gríni en líka mikið af einlægni. Þetta er sýning þar sem ég geri grín að sjálfum mér en opna mig á sama tíma og kafa í óöryggi mitt sem listamaður. Mér finnst vanmetið erfitt að sýna gamanleik, þá er fídbakkið mjög ótvírætt, ef þú ert ekki fyndinn, þá hlær enginn og þá veistu að þú sökkar. En það er sömuleiðis erfitt að setja pásu á hláturinn og taka smá stund í að tala um erfiða hluti. Þannig já, áhorfendur mega búast við tilfinningarússíbana,“ segir Arnór í samtali við Fjarðarfréttir.

Ennþá grínari

Hvernig finnst þér þú hafa þroskast sem leikari eftir leikaranámið?

„Þetta er mjög viðeigandi spurning, enda er þetta stórt viðfangsefni í sýningunni. Í gegnum listnámið komst ég í kynni við fjölbreytta list sem ég hafði ekki áður séð. Sömuleiðis lærði ég að líta innávið og vera meira gagnrýninn á sjálfan mig sem listamann. En öllu má ofgera og ef maður fer að upphefja aðra of mikið og gagnrýna sjálfan sig of mikið þá fer hugur manns á mjög furðulega staði. Það er einmitt eitthvað sem ég tala um í einleiknum: Fyrir listnámið var ég grínari sem gerði gamansamar sýningar um sjálfan mig og mitt nærumhverfi. Og nú eftir listnámið er ég… Ennþá grínari sem gerir gamansamar sýningar um mig og mitt nærumhverfi.“

Næsti bolludagur framundan

Aðspurður um hvað sé framundan segir Arnór það margt og mikið. „Fyrst má nefna að næsti bolludagur er bara eftir 355 daga, ég er strax farinn að undirbúa mig. Líkamlega og andlega. En annars svona hvað varðar ferilinn minn þá er ég að gera alls konar. Bráðum fer ég að skrifa síðustu seríuna mína af Stundinni Okkar, sem ég er að skrifa ásamt Óla Gunnari og Mikael Kaaber. Ég er að vinna að tveimur öðrum verkefnum sem er ekki tímabært að segja frá ennþá (en er mjööööög spenntur fyrir þeim). Síðan er ég, ásamt fríðu föruneyti, að vinna að annarri sýningu fyrir Gaflaraleikhúsið sem gæti orðið algjör grínsprengja. En sú sýning veltur algjörlega á því hvort við í Gaflaraleikhúsinu fáum að halda húsinu aðeins lengur. Við bæjarbúarnir krossum bara fingur að góðir hlutir gerist fyrir menningarlíf bæjarins! En eins og ég sagði, þá er það fyrst og fremst bolludagurinn, eftir 355 daga,“ segir hinn bolluelskandi nýútskrifaði leikari að lokum.

Miðasala á sýninguna Án djóks er á tix.is

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2