fbpx
Fimmtudagur, október 3, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífJólin ganga í garð – hugvekja

Jólin ganga í garð – hugvekja

Bragi J. Ingibergsson sóknarprestur í Víðistaðakirkju

Það er greypt í minni mitt þegar jólin gengu í garð í fyrsta skipti. Þá kynntist ég jólaandanum, sennilega 4 ára gamall. Daginn áður, á Þorláksmessu, vildu foreldrar mínir af einhverjum ástæðum koma okkur bræðrum sem fyrst í rúmið, sem hefur sjálfsagt gengið vel því þá var ekki nein sérstök eftirvænting í barnshuganum; þessi dagur var ekki svo ólíkur öðrum.

En svo kom aðfangadagur og þá lá eitthvað í loftinu, stofan var læst eins og helgur leyndardómur. Það var farið til kirkju klukkan sex og þegar heim var komið aftur var pabbi allt í einu með lykilinn að jólunum í höndunum. Hann opnaði stofudyrnar og dýrð jólanna blasti við. Allt var öðruvísi en venjulega, fallega skreytt og innst í horninu blasti við stórt tré með marglitum ljósum og undir því forvitnilegir pakkar í öllum stærðum og gerðum. Jólin voru gengin í garð.

Þá stóðu jólin aðeins yfir í tæpar tvær vikur, eða fram á Þrettándann, og voru sannkölluð hátíð, en nú virðist búið að gera jólin að árstíð eða jafnvel heilli vertíð. Jólaauglýsingar birtast í útvarpi og á samfélagsmiðlum frá byrjun október og á svipuðum tíma sjást fyrstu jólaskreytingarnar sem svo fjölgar hratt út um borg og bý.

Það sem áður var á jólum mikilfenglegt og upphafið í einfaldleika sínum og hreif barnsálir á öllum aldri inn í hátíð, sem skar sig úr venjulegum daggangi tilverunnar, hefur nú verið teygt á alla kanta og þynnt svo út að það virðist engin hátíð lengur í eiginlegri merkingu þess orðs.

En það er samt eitt sem ekki breytist sem betur fer – og mun aldrei gera. Og það er boðskapur jólanna, inntak þeirra og merking fyrir líf hverrar manneskju í tímanlegum heimi. Á jólunum fögnum við fæðingu Frelsarans og opnum hjarta okkar fyrir honum er hann knýr dyra. Og ef við gerum það þá erum við allt í einu komin með lykilinn að jólunum í hendurnar, getum opnað stofu híbýla okkar og hleypt gestinum inn, svo jólaandinn fái fyllt hvern krók og kima.

Og þá skiptir ekki máli hvernig skreytingarnar eru, miklar eða litlar, eða hvernig líðan okkar er, góð eða slæm, því Jesús kemur þangað sem hann er boðinn velkominn og gerir hvern dag að hátíð óháð ytra umhverfi.

Í sveit bernsku minnar sáust sjaldan jólaljós eða -skreytingar á aðventunni; það var kannski hægt að sjá einn eða tvo músastiga í kaupfélaginu og svo auðvitað jólapóstkassa sveitarinnar sem þar var staðsettur og klæddur með jólapappír. Og svo voru það líka litlu jólin í heimavistarskólanum sem ég upplifði þegar ég var kominn á skólaaldur.

Annars minnti fátt á að jólin væru framundan nema svolítið leyndardómsfullt pukur foreldranna og dularfullir pokar inni í svefnherbergisskáp, sem okkur var reyndar bannað að opna. En svo komu jólin inn úr dyrunum klukkan sex á aðfangadagskvöld um leið og hátíðin var hringd inn. Í því ljósi er svo auðvelt að skilja orðin „að jólin gangi í garð“, því þau bókstaflega komu á ákveðnum tíma. Og þá var hátíð.

Og vissulega eru jólin enn hátíð, því þrátt fyrir ytri umbúnað þá koma jólin sjálf alltaf á sínum tíma, ganga í garð eins og fyrir einhverja töfra. Og þegar við finnum þau koma skulum við opna dyrnar, hleypa þeim inn og leyfa þeim að fylla huga og sál af himneskri dýrð, friði og fögnuði.

Megi jólin ganga í garð hjá þér og algóður Guð færa þér sanna hátíð!

Bragi J. Ingibergsson
sóknarprestur í Víðistaðakirkju

 

Hugvekjan birtist í jólablaði Fjarðarfrétta 20. desember 2022.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2