fbpx
Fimmtudagur, október 3, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífHafnfirska hljómsveitin ÞAU gefur út hljómplötu

Hafnfirska hljómsveitin ÞAU gefur út hljómplötu

Hljómsveitin mun fylgja plötunni eftir með tónleikum í Bæjarbíói 6. apríl

Hafnfirska hljómsveitin ÞAU gefur út hljómplötuna „ÞAU taka Vestfirði“ á Spotify 11. mars n.k.

Hljómsveitina skipa þau Rakel Björk Björnsdóttir, söng- og leikona og tónlistarmaðurinn Garðar Borgþórsson. Platan inniheldur tólf frumsamin lög við ljóð eftir vestfirsk skáld.

„Lögin og ljóðin veita innsýn í sögu, menningu og líf fólks í landinu okkar á ólíkum tímum.“ segja þau Garðar og Rakel. „Hér sameinast gamlar raddir og ungar í blóma. Fortíð hittir nútíð og ljóðin öðlast framhaldslíf í vönduðum tónlistarflutningi.“

„Þetta verkefni er í eins konar sögumanns stíl þar sem aðaláherslan er á sögu ljóðanna. Hljóðheimurinn er því í anda ljóðanna, hrár og einlægur. Ljóðlist, tónlist og leiklist sameinast en við sækjum mikinn innblástur í Nick Cave, Tom Waits og The Kills. Tónlistin er því blúsuð, rokkuð og ljúf í senn. Við stefnum á að halda áfram að semja tónlist og fylgja innsæinu, vera leitandi í tónlistarsköpuninni. En við erum miklir rokkarar sem verður líklegast ríkjandi undirtónn í komandi verkefnum.“

Rakel og Garðar á tónleikum

Höfundar ljóðanna eru Eiríkur Örn Norðdahl, Guðmundur Ingi Kristjánsson, Halla skáldkona Eyjólfsdóttir, Herdís og Ólína Andrésdætur, Jakobína Sigurðardóttir, Jón úr Vör, Ólína Þorvarðardóttir, Steingerður Guðmundsdóttir, Steinn Steinarr og Tómas G. Geirdælingur.

Lögin á plötunni

    1. Utan hringsins
    2. Skrúður
    3. Alltaf er einhver sem grætu
    4. Glóey
    5. Kata gamla í kofanum
    6. Meðalhófið
    7. Hugsjón
    8. Álfamærin
    9. Staka
    10. Varir skáldsins
    11. Þá var auðna og yndi
    12. Tak mig vindur

Góðir vinir og samstarfsfélagar þeirra koma einnig fram á plötunni. Hjörtur Ingvi Jóhannsson spilar á píanó og Aron Steinn Ásbjarnarson spilar á saxófón en þeir eru báðir í hljómsveitinni í 9 líf.

Hljómsveitin mun fylgja plötunni eftir með tónleikum í Bæjarbíói 6. apríl n.k. undir yfirskriftinni „ÞAU taka Bæjarbíó“. Með þeim verður píanóleikarinn Agnar Már Magnússon.

Fáheyrðir fjársjóðir úr kjallara Bókasafns Hafnarfjarðar

„Verkefnið hefur djúpar menningarlegar rætur sem við viljum gjarnan deila með öðrum,“ segja þau Rakel og Gaddi, eins og Garðar kallar sig.

„Tímabil ljóðanna nær yfir 100 ár og mörg þeirra eru fáheyrðir fjársjóðir sem við fundum í ljóðabókum úr kjallara Bókasafns Hafnarfjarðar.

Hvert ljóð hefur sína sögu og tengingu við íslenskt samfélag í gegnum skáldin og boðskap ljóðanna sem vísar oft í raunverulega atburði, fólk og reynslu. Það er svo mikil tilfinning og saga í orðunum en á tónleikunum segjum við jafnframt frá því hvaðan ljóðin koma. Þetta er líka ákveðið andsvar við óskýrum og einföldum textum sem einkenna íslenska nútíma popptónlist.“  

Rakel Björk Björnsdóttir og Garðar Borgþórsson.

Garðar Borgþórsson er gítar- og slagverksleikari. Hann hefur komið fram með fjölda hljómsveita sem slagverksleikari og gítarleikari, hér á landi og erlendis, svo sem með hljómsveitunum different Turns og Ourlives. Hann starfar sem hljóðmaður í Borgarleikhúsinu, auk þess sem hann hefur samið tónlist fyrir fjölda leiksýninga, til að mynda leiksýningar Borgarleikhússins; Eitur, Flóð, 1984, Oleanna, Þétting Hryggðar og Ein komst undan.

Rakel Björk Björnsdóttir er leik- og söngkona við Borgarleikhúsið og fór m.a. með hlutverk Fríðu Hugljúfu í söngleiknum Matthildi, hlutverk Sóleyjar í farsanum Sex í sveit. Um þessar mundir fer Rakel með hlutverk unga Bubba, Ingu og Brynju í Bubba Morthens söngleiknum Níu líf.

Úr unga Bubba í Níu Lífum. Ljósm.: Grímur Bjarnason

 

 

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2