Leikfélag Hafnarfjarðar fær athvarf í Kópavogi!

Lítið gengur að finna húsnæði fyrir gamalgróið hafnfirskt leikfélag

Leikfélagið hefur áður þurft að geyma eigur sínar í gámi á geymslusvæði. Ljósmynd: Gunnar Björn Guðmundsson.

Leikfélag Hafnarfjarðar, sem stofnað var 1936, hefur sent bréf til Hafnarfjarðarbæjar þar sem félagið ítrekar ósk sína eftir viðræðum við Hafnarfjarðarbæ um endurnýjun samstarfssamnings og aðstoð við að finna félaginu aðstöðu vegna núverandi húsnæðisvanda þess.

Fær ekki lengur inni á St. Jó

Samstarfssamningur leikfélagsins og bæjarins sem fól í sér aðstöðu fyrir félagið í kapellu St. Jó rann út í sumar og hefur félagið fengið að vera í húsnæðinu áfram þar sem framkvæmdir við aðstöðuna hafa ekki hafist nema að litlu leyti. Nú er félagið hins vegar á leið úr kapellunni vegna framkvæmdanna.

Í maí sl. óskaði þáverandi formaður félagsins eftir viðræðum við menningar- og ferðamálanefnd til þess að ræða starfið og stöðu mála vegna samnings félagsins við bæinn og aðstöðuna í kapellunni. Nefndin ræddi erindið og húsnæðismál LH á fundi sínum 23. júní og vísaði áfram til bæjarráðs. Í framhaldi funduðu nýr formaður og varaformaður Leikfélags Hafnarfjarðar í september sl. með Ragnheiði Agnarsdóttur, verkefnastýru St. Jó, og Sigurði Nordal sviðsstjóra stjórnsýslusviðs um húsnæðismálin og aðstöðuna í St. Jó. Þar var leikfélagið upplýst um áætlaða framvindu framkvæmda og sagt að ekki væri annað húsnæði fyrir félagið í sjónmáli.

Leikfélag Hafnarfjarðar fékk inni í kapellunni sumarið 2019 eftir langt húsnæðisleysi. Það tók rúmt ár að koma húsnæðinu í viðunandi stand með heitu vatni, ræstikompu og viðbótarsalerni svo leyfi heilbrigðiseftirlits fengist fyrir starfseminni og 30 gesti. Nokkrum mánuðum síðar var annað tveggja salerna fjarlægt. Þessar takmarkanir hafa ásamt Covid staðið starfseminni að miklu leyti fyrir þrifum en þó hefur kapellan nýst félaginu vel eftir aðstæðum og verið góð félagsaðstaða.

Tekist hefur að þjálfa nýliða og lengra komna í leiklist og leikritun, höfundasmiðjan hefur eflst til muna og mörg ný verk litið dagsins ljós, nýjar aðferðir við skriftir, leik og framsetningu og nýir félagar, áhorfendur og aðdáendur hafa bæst í hópinn.

Fá aðstöðu fyrir sýningu í Kópavogi

Undanfarið hafa staðið yfir æfingar á nýju gamanleikriti í fullri lengd eftir höfundasmiðju Leikfélags Hafnarfjarðar sem nokkrum sinnum hefur frestast vegna aðstæðna en útlit er nú fyrir að verði sýnt í Kópavogi eftir áramót, þar sem Leikfélag Kópavogs hefur boðist til þess að skjóta skjólshúsi yfir sýninguna ef ekki tekst að finna aðstöðu fyrir hana í Hafnarfirði.

Brennandi áhugi á að efla starfsemina

Í bréfinu, sem Gísli Björn Heimisson, formaður félagsins undirritar, segir að Leikfélag Hafnarfjarðar hafi brennandi áhuga á að halda áfram að efla starfsemi sína og bjóða Hafnfirðingum uppá áhugaleikhússtarfsemi af bestu gerð, með námskeiðum, opnu húsi, höfundasmiðju, stuttverkahátíðum og vönduðum leiksýningum, frumsömdum sem og þekktum verkum af öllu tagi, eins og leikfélagið hafi sýnt og sannað að það hafi alla burði til – Til þess er nauðsynlegt að hafa afdrep af einhverju tagi.

Bréfið var tekið fyrir á fundi menningar- og ferðamálanefndar í vikunni og var Andra Ómarssyni verkefnastjóra falið að afla frekari upplýsinga frá Leikfélagi Hafnarfjarðar.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here