Las bæjarstjórnin ekki eigin samþykkt?

Bæjarstjórn vill fella úr gildi heimildarákvæði um niðurrif húsa við Reykjavíkurveg

Húsin sem hér hafa verið lituð gul við Reykjavíkurveg verður heimilt að rífa eða flytja vegna breytinga á Reykjavíkurvegi ef deiliskipulagstillagn er samþykkt óbreytt.

Í október sl. samþykkti bæjarstjórn að auglýsa deiliskipulagstillögu fyrir vesturbæ Hafnarfjarðar. Hafði vandað verið til verka og fjölmargir kynningarfundir haldnir og skrifuð löng greinargerð með tillögunni.

Þessa tillögu virðast bæjarfulltrúar ekki hafa lesið í gegn því á bæjarstjórnarfundi í gær samþykkt bæjarstjórnin samhljóða að fellt yrði út ákvæði á bls. 50 í greinargerð með tillögu að deiliskipulagi vesturbæjar, um niðurrif, færslu húsa og verndarsvæði í byggð vegna borgarlínu.

Sagði Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri á fundinum að alls ekki hafi verið ætlunin að hafa þessi ákvæði inni og sagði það hrein mistök að þau hafi verið þar og leitt að enginn í bæjarstjórn hafi áttað sig á því að þessi mistök myndu leiða til þessa misskilnings sem varð þegar fólk hafi lesið í þetta orðalag. Þá fyrst hafi verið ljóst að það hafi verið mistök að hafa þetta orðalag inni.

Aðeins Guðlaug Kristjánsdóttir tók til máls, auk bæjarstjóra, um þetta málefni en fram kom í máli Kristins Andersens, forseta bæjarstjórnar, að nokkuð gott samráð á milli bæjarfulltrúa hafi verið fyrir fundinn um málið.

Bókun bæjarstjórnar frá í gær:

„Bæjarstjórn Hafnarfjarðar er sammála um að ákvæði, á bls. 50 í greinargerð með tillögu að deilisskipulagi vesturbæjar, um niðurrif, færslu húsa og verndarsvæði í byggð vegna borgarlínu, verði felld brott.“

Um Reykjavíkurveginn segir á bls. 50 í greinargerðinni m.a.:

Skv. upplýsingum á heimasíðu Borgarlínunnar er áætlað að árið 2030 muni Borgarlínan aka um Reykjavíkurveg sömu leið og strætó ekur nú. Reykjavíkurvegur er skv. svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins skilgreind stofnleið hjólreiða og í viðauka B um stofnleiðanet 2020-2033 kemur fram að árið 2033 verði búið að koma upp aðskildum hjólastígum meðfram götunni. Til þess að hvort tveggja geti orðið að veruleika þarf að gera umtalsverðar breytingar á Reykjavíkurveg sem er á köflum þröngur. Vert er að nefna að hljóðstig við Reykjavíkurveg er mjög hátt, sjá kafla 3.9 um hljóðvist. Af þessum sökum eru skipulagsmörk dregin í eða við lóðarbrún lóða við Reykjavíkurveg en mörk verndarsvæðis í byggð eru dregin inn (austar) sem svarar einni húsaröð. Tillaga að deiliskipulagi veitir engar nýjar heimildir til uppbyggingar við Reykjavíkurveg en gefnar eru heimildir til þess að flytja hús eða fjarlægja ef til þess kæmi að endurhanna þyrfti aðkomuna til Hafnarfjarðar í gegnum Reykjavíkurveg.

Eins og áður hefur komið fram var enginn sérstök kynning á þessum þætti í deiliskipulagsvinnunni, að húsin við Reykjavíkurveg væri ekki hluti af verndarsvæði í byggð og deiliskipulagstillagan eins og hún lá fyrir, gæfi möguleika á því að húsaröð við Reykjavíkurveg yrði fjarlægð ef nauðsynlegt væri vegna Borgarlínu.

Athugasemdafresti lauk í dag og málið fer áfram í vinnslu hjá skipulags- og byggingarráði.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here