Knatthús á Ásvöllum kostar 2 til 2,8 milljarða króna skv. mati starfshóps

Lóðagjöld sem ella hefðu farið í bæjarsjóð nýtt í framkvæmdina

Nýja knatthúsið og Ástjörnin í forgrunni

Samkvæmt lokaskýrslu starfshóps um uppbyggingu á Ásvöllum er gert ráð fyrir að nýtt knatthús muni fullbúið kosta 2.040 – 2.760 milljónir kr. en samningur bæjarins við Hauka um byggingu hússins var samþykktur á bæjarstjórnarfundi sl. miðvikudag með atkvæðum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks en fulltrúar Samfylkingar sátu hjá en fulltrúar minnihlutans höfðu óskað eftir frestun á málinu á meðan erindi Skipulagsstofnunar um skipulagsmál á svæðinu væri svarað.

Húsið mun verða í 100% eigu Hafnarfjarðarbæjar.

Töluverðar umræður voru um málið og aðallega var deilt á að verið sé að fara gegn forgangsröðun ÍBH auk þess sem gagnrýndur var flýtir málsins en ekki var samþykkt að fresta afgreiðslu á meðan beðið var afgreiðslu Skipulagsstofnunar á deiliskipulagi svæðisins.

Í samantekt starfshópsins er gert fyrir að 400-600 milljónir kr. tekjur af sölu lóða undir íbúðarhús renni til byggingar knatthússins og áætla að tekjur af fasteignagjöldum og útsvarsgreiðslum nemi um 180 milljónum kr. á ári. Kostnaður skattgreiðenda minnkar líklega ekkert við þetta því tekjur af sölu lóða hefði ella runnið í framkvæmdir og rekstur sveitarfélagsins eins og kemur fram í svari Kristins Andersen, forseta bæjarstjórnar við fyrirspurn Fjarðarfrétta.

Þá upplýsir hann að kostnaður Hafnarfjarðarbæjar vegna þessa íbúðarhúsa, skipulagsvinnu og gatnagerðar, liggi ekki fyrir.

Hann upplýsir jafnframt að í samantekt starfshópsins sé aðeins frumdrög að kostnaðaráætlun.

Fulltrúi í meirihluta samþykkti með fyrirvara

Kristín María Thoroddsen, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks greiddi atkvæði með samþykkt á samningnum við Hauka með fyrirvara við fyrirliggjandi samkomulag um að farið verði í undirbúning framkvæmda á yfirbyggðri knattspyrnuaðstöðu á vallarsvæði.

„Fyrirvarinn byggist á því að lögð verði áhersla á að stærð og tegund byggingar á umræddu svæði samræmist þörf og iðkendafjölda, að framkvæmt sé á sem hagkvæmasta hátt og að fjármunum sé forgangsraðað miðað við fyrirliggjandi þarfagreiningu á útdeilingu fjármagns til framkvæmda í bæjarfélaginu,“ segir Kristín María í bókun sinni á fundinum.

Frestunartillaga felld

Felld var frestunartillaga fulltrúa Samfylkingarinnar en í greinargerð með henni stóð m.a.: „Þar sem Skipulagsstofnun hefur, með bréfi dags. 20. desember sl., gert athugasemdir við tillögu að breytingu á aðalskipulagi vegna Ásvalla, leggjum við til að afgreiðslu á samkomulagi um uppbyggingu á Ásvöllum verði frestað þar til þeim athugasemdum hefur verið svarað. Þar sem umrædd breyting varðar byggingu íbúða sem settar eru í samhengi við uppbyggingu knatthúss á svæðinu er eðlilegt að þetta tvennt sé skoðað samhliða.“

Þá kom fram að það væri ekki síst vegna athugasemda varðandi mikilvægi þess að í tillögunni sé fjallað um möguleg áhrif á friðlýst svæði Ástjarnar, sem fulltrúar Samfylkingarinnar tölud rétt að staldra við. Sögðu þeir að frestun á afgreiðslu samkomulagsins um nokkrar vikur ætti ekki að koma niður á áformum um byggingu knatthúss á Ásvöllum enda gerir fjárhagsáætlun sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra lögðu fram í desember sl. ekki ráð fyrir neinu fjármagni í verkefnið á árinu.

Athugasemdir Skipulagsstofnunar tefja samþykkt aðalskipulags.

Skipulagsstofnun ritaði Hafnarfjarðarbæ bréf þann 20. desember sl. þar sem gerðar voru athugasemdir við skipulagsferlið. Var m.a. gert athugasemd við það að aðalskipulagstillagan hafi ekki verið send Skipulagsstofnun til athugunar fyrir auglýsingu hennar eins og skylt er skv. lögum.

Hugmynd að útliti bygginga á íþróttasvæði Hauka á Ásvöllum

Í bréfi Skipulagsstofnunar kemur fram að í umsögn Umhverfisstofnunar um skipulagslýsingu fyrir verkefnið hafi stofnunin tekið undir þær áherslur sem lagt var upp með í lýsingunni og á mikilvægi þess að í tillögunni sé fjallað um það hvort framkvæmdir á svæðinu geti á einhvern hátt haft áhrif á friðlýst svæði Ástjarnar. Bent er á að í aðalskipulagsbreytingunni komi ekkert fram um þessi atriði!

Ýmsar aðrar athugasemdir eru í bréfinu og kemur fram að aðalskipulagið verði ekki staðfest fyrr en búið er að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar.

Þarf ekki að hafa áhrif á deiliskipulagsferlið en athugasemdafrestur er liðinn

Athugasemdafrestur um deiliskipulagsbreytingu sem byggist á aðalskipulagsbreytingu er liðinn en enginn kynningarfundur var um deiliskipulagsbreytinguna en með henni er knatthúsið fært til austurs, að útjaðri íþróttasvæðis Hauka, næst Ástjörn.

Í svari Skipulagsstofnunar við fyrirspurn Fjarðarfrétta þar sem spurt var hvaða áhrif athugasemdirnar hefði á deiliskipulagsferlið segir að endanleg útfærsla á aðalskipulagsbreytingunni þurfi ekki að hafa áhrif á skipulagsferli deiliskipulagstillögunnar. „Bæjarstjórn getur samþykkt deiliskipulagstillöguna samhliða því að aðalskipulagsbreytingin er afgreidd endanlega, þegar brugðist hefur verið við athugasemdum, þrátt fyrir að athugasemdafresturinn hafi ekki verið sá sami. Aðeins ef bæjarstjórn gerir grundvallarbreytingu á deiliskipulagstillögunni við endanlega afgreiðslu getur þurft að auglýsa hina breyttu tillöguna aftur, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga,“ segir í svarinu.

Samkomulagið með níu af ellefu atkvæðum í bæjarstjórn

Var samkomulag Hafnarfjarðarbæjar og Hauka samþykkt með 9 atkvæðum en bæjarfulltrúar Samfylkingar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna eins og kemur fram hér að ofan.

Ummæli

Ummæli