Síðasta miðvikudag hvers mánaðar hittast Þjóðverjar og þýskumælandi Íslendingar á kaffihúsinu Norðurbakkanum til að spjalla saman á þýsku og fá sér kaffibolla. Hópurinn byrjaði að hittast í byrjun árs og hittist einnig í sumar. Mæting er frjáls og hefur frá byrjun verið mjög góð. Alltaf bætast ný andlit við sem koma víða að. Hansabærinn Hafnarfjörður tengist Þýskalandi á ýmsan hátt og er því upplagt að þýskumælandi fólk hittist hér að sögn Birgitte Bjarnason sem segir að allir sem tala þýsku sé velkomið að mæta.
Heimsókn á Bókasafn Hafnarfjarðar er tilvalin fyrir þá sem eru áhugasamir um þýska tungu. Bókasafnið tók fyrir nokkrum árum við bókakosti Goethe-stofnunar sem rekin var í Reykjavík um nokkurt skeið. Þýskudeildin á safninu býður upp á mikið úrval af les- og kennsluefni í þýsku fyrir Þjóðverja, þýskumælandi Íslendinga og nemendur í þýsku. Einnig er hægt að fá lánaðar þýskar kvikmyndir.
Í samvinnu við Þýsk-íslenska tengslanetið verður haldið þýskunámskeið fyrir börn á laugardögum í vetur. Í nóvember er farið í luktagöngu og í maí er haldin maíhátið.
Spjallhópurinn og þýska bókasafnið eru með síður á Fésbókinni: Deutsch Isländische Kaffeerunde og Deutsche Bibliothek in Hafnarfjörður. Þar er að finna fréttir og tímasetningu næsta kaffispjalls.