Jónatan Garðarsson fékk í dag heiðursverðlaun Dags íslenskrar tónlistar

Jónatan Garðarsson - skjáskot

Dagur íslenskrar tónlistar 2020 var haldinn hátíðlegur fyrr í dag með dagskrá í Iðnó í Reykjavjík. Velunnurum íslenskrar tónlistar voru þar veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi umfjöllun og stuðning við íslenska tónlist og loks voru fluttar þrjár íslenskar dægurperlur sem voru í forgrunni fyrir þennan dag.

Hafnfirðingurinn Jónatan Garðarsson fjölmiðlamaður fékk heiðursverðlaun Dags íslenskrar tónlistar sem kennd eru við Lítinn fugl. Viðurkenninguna fær Jónatan fyrir framúrskarandi störf í þágu íslenskrar tónlistar í gegnum tíðina, meðal annars fyrir vandaða og metnaðarfulla dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi.

Jónatan sýndi strax í Flensborg mikinn áhuga á tónlist svo eftir var tekið. Hann hóf að skrifa um popptónlist í dagblöð árið 1977 og um líkt leyti byrjaði hann að gera útvarpsþætti um tónlist. Seinna bættist sjónvarps- og heimildarþáttagerð við. Hann var einn af stofnendum Jazzvakningar og formaður þess félags á upphafsárunum. Hann vann við hljómplötuútgáfu frá 1978 til 1987 og var formaður Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda lengi vel. Jónatan hefur gegnt formennsku hjá Tónlistarsjóði og verið framkvæmdastjóri Félags íslenskra hljómplötuútgefenda.

Jónatan hefur komið að íslenskri tónlist á margvíslegan hátt í rúma fjóra áratugi. Hann var lengi fararstjóri íslenska Eurovision hópsins, skrifað fjölmargar greinar um tónlistarmenn, hljómplötur og íslenskt tónlistarlíf, komið að bókarskrifum um íslenska tónlist, kennt rokksögu í Tónlistarskóla FÍH og Menntaskóla í tónlist og haldið fyrirlestra um íslenska tónlist um árabil. Hann tók þátt í að setja Rokksafn Íslands á laggirnar og skrifaði allan texta safnsins. Undanfarin ár hefur hann starfað hjá Ríkisútvarpinu meðal annars við þáttagerð.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hlaut svo hvatningarverðlaun Dags íslenskrar tónlistar fyrir öfluga og metnaðarfulla dagskrá undanfarin ár, meðal annars kvikmyndartónlistarverkefnið SinfoniaNord.

Heimild: RÚV

Ummæli

Ummæli