fbpx
Laugardagur, apríl 20, 2024
HeimFréttirHafþór fékk silfur á Norðurlandamóti í Ólympískum hnefaleikum

Hafþór fékk silfur á Norðurlandamóti í Ólympískum hnefaleikum

Meiddist á hendi og varð að draga sig úr keppni fyrir úrslitaeinvígið.

Norðurlandameistaramótið í hnefaleikum var haldið um síðustu helgi í Akurskóla í Reykjanesbæ. Þetta var í fyrsta skipti sem mót af þessari stærðargráðu er haldið hér á landi.

Upprunalega átti mótið að fara fram árið 2020 en sökum kórónuveirufaraldursins hefur ekki tekist að halda það fyrr en nú. Með því að hafa tekið að sér að halda mótið hefur Ísland tryggt sér sæti á öllum Norðurlandamótum héðan í frá.

Hafþór Magnússon

Á mótinu tóku þátt margir af sterkustu keppendum Norðurlandanna. Þátttakendur voru 74 talsins 17 ára og eldri og allt keppendur sem eru fremstir meðal jafningja í sínum þyngdarflokkum.

Ísland sendi inn sterkt níu manna lið og þar á meðal Hafnfirðinginn Hafþór Magnúson sem er einn sterkasti boxari sem Hafnarfjörður á um þessar mundir. Hann keppti í 63,5 kg flokki karla í U-19.

Í undanúrslitabardaga mótsins mætti Hafþór Svíanum Elliot Ekhamre sem er Svíþjóðarmeistari í sínum flokki og töluvert reyndari en Hafþór. Eftir að hafa sýnt fram á kraft og snerpu strax í byrjun bardagans og boxað næstu lotur með frábærum tilþrifum hreppti Hafþór sigur á dómaraákvörðun og fór því áfram í úrslit. Hann hafði hinsvegar slasað sig á hönd í bardaganum og eftir læknisskoðun á sunnudeginum var sú ákvörðun tekin að draga hann úr keppni. Hann var samt sem áður búinn að tryggja sér silfur á mótinu og endaði á palli í öðru sæti.

Hafþór fagnar sigri í undanúrslitunum

Erlendir keppendur og dómarar voru spenntir að sjá hann berjast í úrslitum og lýstu margir yfir vonbrigðum sínum að hann skuli ekki hafa getað haldið áfram.

Hafþór byrjaði fyrst að keppa í ólympískum hnefaleikum í maí 2021 og er þetta framúrskarandi góður árangur á svo stuttum tíma og er margt framundan á árinu hjá þessum sterka Hafnfirðingi.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2