Frá ársbyrjun 2021 hefur Hafnarfjarðarbær átta sinnum keypt umfjallanir í Fréttablaðinu fyrir samtals, 1.895.960 kr.
Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Öddu Maríu Jóhannsdóttur, fulltrúa Samfylkingar í bæjarstjórn. Tilefnið var keypt birtinga í Fréttablaðinu á efni frá Hafnarfjarðarbæ um velferðarþjónustu í sveitarfélaginu 3. mars sl. þar sem bæði var heilsíðukynning og forsíðukynning í sérblaði Fréttablaðsins, en fyrir það var greitt 555.520 kr.
Óskaði fulltrúi Samfylkingarinnar eftir upplýsingum um kostnað við birtingu efnis frá Hafnarfjarðarbæ í dagblöðum sl. 12 mánuði. Óskað eftir upplýsingum um a) hvaða efni hafi verið um að ræða, b) í hvaða fjölmiðli efnið hafi birst í, c) dagsetningu birtingar og d) kostnaði við birtingu efnisins.
Fram kom í svarinu að aðeins hafi verið keyptar umfjallanir í Fréttablaðinu og að Morgunblaðið selji ekki umfjallanir í blaðið, heldur einungis auglýsingar.
Efni | Stærð | Dags. | Upphæð |
---|---|---|---|
Vetrarhátíð | heilsíðukynning | 4. febrúar 2021 | 223.200,- |
Sjómannadagurinn | 5dx20 cm kynning | 5. júní 2021 | 184.760,- |
Frðast í sumar | forsíðukynning | 2. júlí 2021 | 248.000,- |
Syndum | heilsíðukynning | 4. nóvember 2021 | 223.200,- |
Söfnin í aðventunni | heilsíðukynning | 4. desember 2021 | 223.200,- |
Konur í atvinnulífinu | heilsíðukynning | 21. janúar 2022 | 238.080,- |
Velferðarþjónusta | forsíðukynning | 3. mars 2022 | 317.440,- |
Velferðarþjónusta | heilsíðukynning | 3. mars 2022 | 238080 |
Allar upphæðirnar eru með virðisaukaskatti.
Þá var einnig óskað eftir upplýsingum um kostnað við kostaðar auglýsingar á samfélagsmiðlum á sama tímabili en svar við því hefur ekki borist en fyrirspurnin var lögð fram á fundi bæjarstjórnar 17. mars sl.