fbpx
Fimmtudagur, febrúar 22, 2024
HeimFréttirHæsta tilboði hafnað í Ásvelli 3

Hæsta tilboði hafnað í Ásvelli 3

Nesnúpur íhugar kæru og telur rökstuðning fyrir höfnun vanta

Hafnarfjarðarbær hefur úthlutað Byggingarfélagi Gylfa og Gunnars hf. (BYGG) lóðinni Ásvellir 3, en lóðin var hluti af íþróttasvæði Hauka.

Á lóðinni má byggja allt að 110 íbúðir í fjölbýli.

Tíu tilboð bárust í lóðina, frá 564 milljónum kr. til 1.325,5 milljónum kr.

BjóðandiTilboðsupphæð
Nesnúpur ehf.1.325.500.000
Byggingafélag Gylfa og Gunnars hf.1.277.000.000
Þ.G. Verktakar ehf.1.144.140.815
Glaðsmíði ehf.1.105.100.000
Vetrarfell ehf.981.270.000
Fjarðarmót ehf.830.000.000
Boxhus ehf.756.000.000
HMH ehf.729.500.000
Húsvirki ehf.654.000.000
Nýmót ehf.564.000.000

Nesnúpur ehf. átti hæsta tilboðið en því var þó ekki tekið þrátt fyrir að standast allar kröfur skv. fjárhagslegri greiningu á umsækjendum. Aðeins fjórir bjóðendur stóðust allar kröfur. Í þessari greiningu er krafa um staðfestingu á fjármögnun, flekklausa byggingarsögu, áritaða ársreikninga, jákvætt eigið fé, tilboð yfir markaðsvirði og veltu yfir 900 millj. kr.

BYGG bauð 1.277 milljónir kr., 48,5 milljónum lægri en Nesnúpur.

Bygging knatthúss á Ásvöllum er nú í umhverfismati en skv. því er valkostur 2, staðsetning hússins skv. fyrri áætlunum en það skarast á við íbúðabyggðina sem ekki gæti risið fáist ekki að flytja staðsetningu knatthússins að útjaðri lóðar Hauka, rétt við Ástjörnina. Ekki er að sjá í gögnum sem Hafnarfjarðarbær hefur afhent að neinir fyrirvarar séu gerði eða fyrirhugaðir í úthlutun lóðarinnar.

Dökki reiturinn sýnir staðsetningu knatthúss skv. valkosti 2 og fer hann yfir nýju fjölbýlishúsalóðina að hluta.

Nesnúpur íhugar kæru

Nesnúpur er í sömu eigu og VHE og Skarðshlíð ehf. og hefur byggt töluvert af húsum í Hafnarfirði.

Engar röksemdir eru birtar fyrir afgreiðslu málsins í bæjarráði, né í bæjarstjórn en í samskiptum fulltrúa Nesnúps og Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að Hafnarfjarðarbær telur að framvinda verkefna hjá Nesnúpi hafi ekki verið í samræmi við skilmála þar um og upplýst er að af þeim lóðum sem félagið fékk úthlutað árið 2016 séu enn ekki hafnar framkvæmdir á tveimur lóðum og framkvæmdir komnar stutt á veg á tveimur liðum. Þar kemur jafnframt fram að framkvæmdir hjá BYGG á þeim lóðum sem félagið fékk úthlutað 2016 hafi ekki að fullu veri í samræmi við skilmála þar um.

Fulltrúar Nesnúps hafa gert verulegar athugasemdir við afgreiðslu málsins og í bréfi lögmannsstofunnar Magna til Hafnarfjarðarbæjar má t.d. sjá að Hafnarfjarðarbær hafi ekki orðið við þeim kröfum um að rökstyðja með fullnægjandi hætti þá ákvörðun um að taka ekki hæsta tilboði svo hægt yrði að bregðast við forsendum slíkrar tillögu áður en endanleg ákvörðun yrði tekin.

Bent er á að í almennum reglum Hafnarfjarðarbæjar um úthlutun lóða og sölu byggingarréttar segi að litið skuli til þess að byggingarsaga umsækjenda innihaldi ekki „veruleg brot á byggingarskilmálum“. Ekki sé hins vegar útskýrt hvað teljist veruleg brot. „Að því marki sem önnur sjónarmið en fjárhæð tilboðs gátu komið til mats þurfti hins vegar að fara fram samanburður milli umsækjenda. Til þess að unnt væri að taka öðru tilboði en tilboði Nesnúps ehf. hefði slíkur samanburður með tilliti til annarra sjónarmiða þurft að vera Nesnúpi ehf. svo í óhag að það yrði talið vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir sveitarfélagsins og það grundvallarsjónarmið að um útboð að taka beri hæsta tilboði.“

Af hálfu Nesnúps ehf. er allur réttur áskilinn á þessu stigi til að krefjast skaðabóta og grípa til annarra réttarúrræða verði tillaga bæjarráðs staðfest í sveitarstjórn, þ.m.t. til að krefjast ógildingar á ákvörðuninni fyrir dómi í flýtimeðferðarmáli.

Í svari lögmanns Hafnarfjarðarbæjar segir m.a.: „Að virtu framangreindu er það mat sveitarfélagsins að öllum formreglum stjórnsýsluréttarins hafi verið fylgt við meðferð og undirbúning ákvörðunar í málinu. Þannig voru framkomin tilboð metin í samræmi við þær reglur sem lágu til grundvallar og umbjóðanda þínum veitt ítrekað tækifæri til að koma að athugasemdum eftir yfirferð tilboð sem og hann gerði. Málið telst því nægjanlega upplýst að mati sveitarfélagsins og því ekki forsendur til að fallast á frestun máls.“

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2