Fréttablaðið hætt útgáfu

Síðasta Fréttablaðið. Ljósm.: © Guðni Gíslason

Stjórn út­gáfu­fé­lagsins Torgs ehf. hefur tilkynnt að útgáfu Fréttablaðsins og útsendingum Hringbrautar hafi verið hætt. Kemur þetta fram á vef Fréttablaðsins.

Hefur stjórn útgáfufélagins sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„Á­stæður þess að rekstur Frétta­blaðsins gengur ekki upp eru marg­vís­legar. Að hluta til er um ó­heppni að ræða og að hluta er um að ræða ó­við­ráðan­lega þróun þar sem út­gáfa fjöl­miðla á pappír hefur látið hratt undan síga víða um heim, ekki síður en hér á landi. Staf­rænir fjöl­miðlar eru smám saman að taka yfir. Þá er rekstrar­um­hverfi einka­rekinna miðla á Ís­landi ó­boð­legt. Ekki er um annað að ræða en að horfast í augu við þessar stað­reyndir. Allir ráðnir starfs­menn Torgs fengu greidd laun í dag.

Veiru­vandinn sem herjaði á Ís­lendinga og heims­byggðina alla árin 2020 til 2022 kom mjög illa við rekstur Frétta­blaðsins og leiddi til tap­rekstrar. Aug­lýsingar drógust veru­lega saman þegar heilar at­vinnu­greinar og öflug fyrir­tæki drógu saman starf­semi sína eða jafn­vel lokuðu meðan fárið gekk yfir. Í far­aldrinum var tekinn upp stuðningur við einka­rekna miðla, sem var þakkar­vert en dugði stærstu miðlunum skammt. Í fram­haldi hafa stjórn­völd stutt fjár­hags­lega við starf­semi fjöl­miðlanna en það fram­lag hefur dregist saman og ekki náð að halda í við verð­lags­þróun. Mark­mið stjórn­valda með þessum stuðningi var að efla inn­lendan frétta­flutning og styðja og styrkja tungu­málið.

Stjórn­endur út­gáfunnar mátu það svo að um tíma­bundinn vanda væri að ræða sem þyrfti að komast í gegnum þar til eðli­legt á­stand kæmist á að nýju. Veiru­tíma­bilið reyndist hins vegar mun lengra en ætlað var og þegar því lauk í byrjun mars 2022, braust út stríð í Úkraínu sem hafði truflandi á­hrif víða um heim og leiddi til aukins kostnaðar tengdum mikil­vægum að­föngum.

Sam­hliða þessu varð æ ljósara að frídreifing Frétta­blaðsins inn á heimili væri of kostnaðar­söm og fengi ekki staðist til fram­búðar. Þess vegna var gerð sú til­raun að dreifa blaðinu á fjöl­farna staði, svo sem í stór­markaði, þjónustu­stöðvar olíu­fé­laga og verslana­mið­stöðvar, þar sem mikill fjöldi fólks á leið um. Þessi dreifing hefur tekist mjög vel en markaðurinn virðist ekki hafa haft næga trú á þessu fyrir­komu­lagi. Því verður ekki vikist undan því að láta staðar numið. Sam­hliða þessu verður út­sendingum sjón­varps­stöðvarinnar Hring­brautar hætt.

Við höfum á hinn bóginn fulla trú á rekstri DV.is og tengdra miðla, vef­miðlinum hring­braut.is, en starf­semi þessara miðla verður haldið á­fram af fullum krafti auk þess sem upp­lýsinga­miðlinum Iceland Magazine verður hleypt af stokkunum bráð­lega.

Frétta­blaðið hefur komið út sem frí­blað í nær 22 ár og verið mest lesna blaðið landsins allan tímann. Það hljóta því að teljast nokkur tíðindi þegar blaðið hverfur nú af ís­lenskum fjöl­miðla­markaði. Margir hafa reyndar spáð því um ára­bil að þessi rekstur myndi ekki ganga upp vegna þróunar í fjöl­miðlun þar sem vef­miðlar eru að taka yfir og eins vegna þess ill­víga rekstrar­um­hverfis sem einka­reknum fjöl­miðlum er búið á Ís­landi. Um ára­bil og reyndar í ára­tugi hafa stjórn­mála­menn og stjórn­mála­flokkar heitið því að færa fjöl­miðla­markaðinn yfir í sann­gjarnt og eðli­legt horf með því að taka Ríkis­út­varpið af aug­lýsinga­markaði eins og tíðkast í ná­granna­löndum og þykir sjálf­sagt fyrir­komu­lag. Öll slík fyrir­heit hafa verið svikin og ekkert bendir til að breyting verði á. Ríkis­út­varpið fær sex milljarða króna af skatt­peningum lands­manna í sinn hlut á hverju ári, auk þess sem honum líðst að soga til sín aug­lýsinga­fé í um­tals­verðum mæli í sam­keppni við einka­reknu miðlana.

Að auki hefur vaxandi hluti aug­lýsinga­fjár ratað til er­lendra sam­fé­lags­miðla og streymis­veitna án þess að þeir inn­heimti virðis­auka­skatt af þeirri starf­semi sinni eða standa skil á sköttum og gjöldum í ríkis­sjóð eins og keppi­nautum þeirra er skylt. Þetta skekkir sam­keppnis­stöðuna veru­lega án þess að stjórn­völd hafi séð á­stæður til að grípa inn í.

Vitan­lega er mjög dapur­leg niður­staða sem hér er kynnt. En stjórn­endur út­gáfunnar hafa sannar­lega leitað allra leiða til að finna henni við­unandi rekstrar­grund­völl til fram­tíðar, en án árangurs. Stjórn fé­lagsins harmar þessi mála­lok og þakkar þeim fjöl­mörgu starfs­mönnum sem lagt hafa dag við nótt að treysta stoðir rekstrarins undan­farið og óskar þeim vel­farnaðar.“

Ummæli

Ummæli