Margrét Arnardóttir, harmonikkuleikari hefur á undanförnum árum verið einn eftirsóttasti harmonikkuleikari landsins. Margrét er Hafnfirðingur í húð og hár og segist sjálf vera nútíma Gaflari. Eins mikill Gaflari og hægt er að vera í dag. Hún hefur lengi verið að leita sér að nýrri harmonikku og hóf hún söfnun fyrir slíkri á Karolina fund.
En hvað er það sem Margrét er að leita að?
„Það er fyrst og fremst sándið og það er þetta hárrétta franska sánd og þessi djúpi rómantíski tónn. Svo er það líka flautuhljóð í bassanum, sem er mörgum áttundum ofar og getur verið ofsalega fallegt í ákveðnum tilfellum.“ Segir hún harmonikkuna vera þjóðarhljóðfæri í Frakklandi þar sem víða má heyra spilað á hana úti á götu. Ekki má heldur gleyma hlutverki harmonikkunnar í lögum Édith Piaf en Margrét lék einmitt undir hjá Brynhildi Guðjónsdóttur þegar hún lék Édith Piaf í samnefndu leikriti í Borgarleikhúsinu.
Fann áhugaverða harmonikku
Margrét hafði lengi leitað að hinni réttu harmonikku. „Þegar ég var yngri var fólk oft að spyrja mig hvort ég hefði ekki farið til Castelfidardo en ég vissi ekkert hvað þau voru að tala um. En þegar ég var í tónleikaferð með Sóley á Ítalíu 2017 vorum við með einn dag í frí. Þó Ítalía væri stór ákvað ég að gúggla hvort ég væri einhvers staðar nálægt þessu harmonikkuþorpi. Þá var ég í 25 mínútna fjarlægð frá því. Og ég tók bara leigubíl og eyddi deginum í að prófa hinar ýmsu harmonikkur í fjölmörgum verksmiðjum, en þá voru um 27 verksmiðjur þarna.“
Svo var það í september í fyrra sem hlutirnir gerðust. Á 39 ára afmælinu sínu flaug hún til Castelfidardo, sem er lítið þorp á Ítalíu þekkt hjá mörgum sem einhverskonar mekka harmonikkunnar. „Þarna dvaldi ég í tíu daga og heimsótti fjöldann allan af verksmiðjum, mátaði hljóðfæri, ráðfærði mig við fagmennina, mátaði og mátaði oooog mátaði. Og ég FANN!“
Þarna fann hún draumaharmonikkuna sína í síðustu verksmiðjunni, létta harmonikku sem þægilegt er að ferðast með og standa á sviði með, harmonikku með mörgum tökkum sem gefa mismunandi hljóm. Og það var eitt í viðbót sem heillaði hana. Á harmonikkunni er snerill sem getur lokað fyrir hljóðið sem gerir hljóðið enn rómantískara að sögn Margrétar. Harmonikkan er af gerðinni Beltuna og undirgerðin er Leader IV – 96p FLY og kostar um tvær milljónir kr.
Harmonikkan verður sérsmíðuð fyrir hana og segir hún að hún fari sjálf út til að sækja hana og skoða hvort einhverju þurfi að breyta.
Söfnun á Korolina Fund
Margrét setti af stað söfnun á Karolina fund þar sem fólk getur styrkt kaupin með því að kaupa miða á stofutónleika, fengið lag á Instagram, pantað lifandi tónlist eða keypt óvænta gjöf í formi harmonikkuleiks heim að dyrum. Þá er einnig hægt að heita á verkefnið án umbunar. Hún hefur þegar safnað um 72% af upphæðinni og ennþá er næstum mánuður eftir. Skoða má möguleikana á Karolinafund og söfnun Margrétar heitir Draumanikkan!
Hætti í doktorsnámi til að spila á harmonikkuna
Pabbi Margrétar lék á harmonikku og hún heillaðist fljótt af hljóðfærinu og komst í nám hjá Karli Jónatanssyni sem kenndi henni fram á unglingsaldur er hún hélt áfram námi í FÍH.
En hún stefndi annað. Hún lærði lífeindafræði og var í doktorsnámi þegar hún ákvað að taka sér frí árið 2013 og vera í fullu starfi sem harmonikkuleikari. „Ég sagði við sjálfa mig: Ég er ekki doktor, ég er listamaður, ég er harmonikkuleikari. Ég fann mig ekki í náminu og sá glugga og fór á fullt í þetta og var prófessional þar til í mars 2020 þegar Covid kom. Þá mundi ég eftir þrjá mánuði að ég væri lífeindafræðingur og fékk vinnu við að greina Covid og er núna á bráðadeild á Landsspítalanum að vinna í ca 80% starfi sem lífeindafræðingur og spila á harmonikkuna í hlutastarfi. Það hentar mér mjög vel og ég losna við álagið sem fylgir því að vera sjálfstætt starfandi.“
Hún hefur unnið með fjölmörgu tónlistarfólki. „Dæmi um tónlistarfólk sem ég hef unnið með eru Bubbi, Prins Póló, Sóley, Brynhildur Guðjóns, Grétar Örvars, Jelena Ciric, Benni Hemm Hemm, Bogomil Font og Svavar Knútur, svona bara rétt til að nefna einhverja.
Einnig hef ég notið þeirra forréttinda að fá að ferðast bæði út um allt land og heilmikið út fyrir landsteinana með harmonikkuna. Bara núna í sumar var ég til dæmis að túra um Japan með leikrit, og svo má alls ekki gleyma því þegar ég spilaði í Tívolíinu í Kaupmannahöfn á þjóðhátíðardeginum okkar í fyrra, já nikkan hefur meira að segja dregið mig á rauða dregilinn í Cannes!,“ segir Margrét.
Leikur í hljómsveit á Ægi 220 á laugardaginn
Það verður spennandi að heyra í nýju nikkunni hennar Margrétar en um næstu helgi mun hún leika í stórhljómsveit á tónleikum söngkonunnar og söngkennara í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Söru Blandon.
Tónleikarnir bera yfirskriftina Kannski! en á næstunni mun hún fara í aðgerð á hálsi og læknar hafa tjáð henni að hugsanlegt sé að hún muni missa röddina. Tónleikarnir verða í Ægi 220 á laugardaginn kl. 20.