Eva Bryndís (16) ætlar að ganga í kringum landið til styrktar Barnaspítalanum

Hvetur bæjarbúa að ganga með sér fyrsta spölinn á sunnudag kl. 9

Eva Bryndís

Ungur Hafnfirðingur, Eva Bryndís Ágústsdóttir, sem er 16 ára ætlar að ganga í kringum landið og hefst gangan á sunnudagsmorguninn við Hafnarfjarðarkirkju kl. 09.

Egill Friðleifsson, fyrrverandi kórstjóri Kórs Öldutúnsskóla skipulagði með henni fyrsta legginn, út úr Hafnarfirði, frá Hafnarfjarðarkirkju, gegnum Vellina, að Kleifarvatni og inn á Suðurstrandarveg. Hann mun líka ganga með henni fyrsta daginn og er búinn að vera að hvetja eldri borgara og aðra til að fylgja henni fyrsta spölinn að sögn Evu Bryndísar.

„Ég ætla að setja fram áheitasöfnun og peningurinn á að fara til Barna­spítalans, þar sem bróðir minn er langveikur með hjartagalla og spítalinn hefur hjálpað honum og fjölskyldu minni yfir árin,“ segir Eva Bryndís.

Hvetur bæjarbúa að ganga með fyrsta spölinn

„Ég vil að sem flestir geti tekið þátt í að labba með mér fyrsta daginn hvort það er 2 km eða allur dagurinn, þá væri það æði ef fleira fólk gætu hugsað um heilsuna sína og notað göngu sem góða byrjun á hollum lífsstíl,“ segir Eva Bryndís.

Nánar má fylgjast með henni á facebook.com/ArkarinnEva/ og á Snapchat og Instagram