Engin örtröð þegar sundlaugar voru opnaðar á ný

Vonast er til að hægt verði að opna útisvæði Suðurbæjarlaugar um næstu mánaðarmót

Barnalaugin í Ásvallalaug er vinsæl. Mynd úr safni.

Sundhöll Hafnarfjarðar og Ásvallalaug voru opnaðar á ný í morgun eftir langa lokun vegna kórónuveirunnar.

Aðalsteinn Hrafnkelsson, forstöðumaður íþróttamannvirkja hjá Hafnarfjarðarbæ segir að engin örtröð hafi myndast en sundlaugarnar voru opnaðar á hefðbundnum tíma í morgun. Sagði hann fastagestina að sjálfsögðu hafa verið á sínum stað við dyrnar þegar opnað var en annars hafi starfsemin farið eðlilega af stað.

Heimilaður fjöldi er miðaður við 50% af afkastagetu lauganna og því mega aðeins 32 vera í Sundhöllinni hverju sinni til 1. júní og 200 í Ásvallalaug.

Um næstu mánaðamót er gert ráð fyrir að 267 megi vera í Ásvallalaug og 48 í Sundhöllinni.

Miklar viðgerðir standa yfir í Suðurbæjarlaug en gert er ráð fyrir að viðhaldsvinnu á sundsvæði verði lokið fyrir mánaðamót og þá verði hægt að opna útiklefa og útisvæði auk þess sem líkamsræktarstöðin Gym heilsa mun opna fyrir starfsemi í kjallaranum.

Vinna er hafin við umfangsmiklar lagfæringar á stórum hluta af þaki hússins og vonaðist Aðalsteinn til að þeim framkvæmdum yrði lokið fyrir haustið er skólasund hefst. Aðgengi að lauginni frá 1. júní verður því um hlið að útisvæði en ekki verður hægt að hleypa fólki að anddyri.

Ummæli

Ummæli