Mjög mikill skortur er á íslenskukennslu fyrir útlendinga í Hafnarfirði. Þetta kom fram á fundi fjölmenningarráðs Hafnarfjarðar fyrr í mánuðinum.
Engin íslenskukennsla hefur verið í Námsflokkum Hafnarfjarðar og engin föst íslenskukennsla í Hafnarfirði eins og er. Ástjarnakirkja er stundum með íslenskunámskeið á sinum vegum en ekkert annað skv. mati ráðsins. Telur ráðið erfitt fyrir fjölskyldufólk að sækja íslenskunámskeið til Reykjavíkur.
Á fundi ráðsins kom fram að þörf væri á íslenskukennslu á vinnutíma og starfstengdum tungumálanámskeiðum. Álag í vinnu og mannekla ætti ekki að hafa áhrif á íslenskukennslu starfsmanna.
Bent var á að Rannís sé með styrki til íslenskukennslu fyrir fagaðila og kanna þyrfti hvort hægt væri að virkja starfsemi Námsflokkana.
Góð íslenskukennsla er metin mjög mikilvæg svo innflytjendur geti betur aðlagast íslensku samfélagi og eigi auðveldara með að fá vinnu við hæfi.
Alls búa um 4 þúsund manns með erlent ríkisfang í Hafnarfirði eða um 13% bæjarbúa.
Í fjölmenningarráði sitja:
- Anna Karen Svövudóttir, formaður
- Laura Cervera, varaformaður
- Aleksandra Julia Wegrzyniak, ritari
- Gundega Jaunlinina
- Sylwia Baginska