Engin hafnfirsk umsókn um styrk til íslenskukennslu fyrir útlendinga

233 milljónum kr. var veitt til íslenskukennslu fyrir útlendinga

Um 12% íbúa Hafnarfjarðar er með erlent ríkisfang

Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti hefur úthlutað styrkjum til íslenskukennslu fyrir útlendinga á árinu 2023.

Alls bárust 19 umsóknir frá fyrirtækjum og stofnunum til þessara verkefna og fengu allir styrk. Ráðuneytið hækkaði upphæð til úthlutunar um rúmlega 87 m.kr. frá fyrra ári og úthlutaði alls 232,7 m.kr. til íslenskukennslu á árinu. Samtals fengu fyrirtæki og stofnanir styrki til þess að halda 804 námskeið fyrir 9.099 nemendur á árinu 2023. Það er um 44% fjölgun námskeiða og 42% fjölgun nemenda milli ára.

Það vekur athygli að ekki hefur verið sótt um styrki til íslenskukennslu í Hafnarfirði en um fimmtungur Hafnfirðinga er af erlendu bergi brotinn og nokkuð víst að margir þarfnast íslenskukennslu. Telja margir að góð íslenskukennsla sé forsenda farsællar aðlögunar útlendinga að íslensku þjóðfélagi.

Rannsókn og úttekt á íslenskukennslu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur ákveðið að styðja við þrjár rannsóknir og úttektir á íslenskukennslu fyrir útlendinga, auk þess að láta framkvæma kerfisbundna greiningu á innlendum og alþjóðlegum ritrýndum rannsóknum sem varða framhaldsfræðslu. Á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis er nú unnið að heildarendurskoðun á framhaldsfræðslukerfinu og lögum um framhaldsfræðslu og eru verkefnin liður í þeirri vegferð.

Framhaldsfræðslu er ætlað að veita fólki með stutta skólagöngu ný tækifæri til náms og starfa. Eitt af því sem fram fer undir hatti framhaldsfræðslunnar er íslenskukennsla fyrir útlendinga. Vegna mikillar fjölgunar innflytjenda og flóttafólks hér á landi þykir mikilvægt að endurskoða íslenskukennslu sem fram fer utan formlega skólakerfisins og er miðuð að fullorðnu fólki með annað móðurmál en íslensku.

Nafn stofnunar

Námskeið

Nemendur Úthlutun kr.
Austurbrú 20 200 6.000.000
Betri árangur 10 130 3.450.000
Farskólinn – Miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra 8 80 2.400.000
Fjölsmiðjan 4 40 1.200.000
Fræðslumiðstöð Vestfjarða 18 180 5.400.000
Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi 37 422 11.880.000
Fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja ses 18 140 4.800.000
Kópavogsbær 7 105 2.625.000
MSS – Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum 79 790 23.700.000
Mímir-símenntun 151 1795 49.575.313
Múltikúlti-íslenska 132 1320 25.080.000
Retor sf. Fræðsla 82 1066 28.290.000
Reykjavíkurborg 14 200 4.545.000
Saga-Akademía 40 320 8.800.000
Samband íslenskra kristniboðsfélaga 10 260 2.520.000
Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar 29 348 9.570.000
Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi 14 140 4.200.000
Tungumálaskólinn ehf. 101 1263 34.114.687
Þekkingarnet Þingeyinga 30 300 4.500.000
804 9099 232.650.000

Ummæli

Ummæli