Engin fjárframlög í Reykjanesbraut í Hafnarfirði á næsta ári

Bæjarstjórnin lýsir yfir vonbrigðum með fjárlagafrumvarpið

Strax 2002 vildi Vegagerðin setja mislæg gatnamót þarna.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar lýsir, í samþykkt sinni á bæjarstjórnarfundi, vonbrigðum með að ekki sé gert ráð fyrir fjármögnun brýnna framkvæmda eins og við gatnamót Reykjanesbrautar og Lækjargötu í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram á Alþingi í gær, né annarra stærri verkefna sem tengjast legu Reykjanesbrautar í gegnum sveitarfélagið, s.s. vegna gatnamóta brautarinnar og Fjarðarhrauns.

Fjárlagafrumvarpð gerir ráð fyrir 34,4 milljarða kr. framlagi úr ríkissjóði í samgöngumál og af því er um 20,2 milljarðar kr. skilgreindir sem fjárfestingarframlög sem er 0,9% minna en í fjárlögum 2017. Aðeins 17.6 milljarðar eru ætlaðir til framkvæmda á vegakerfinu. Er framlag til vegamála 1,2 milljörðum kr. hærra en var í fjárlögum núgildandi árs.

Framlag til framkvæmda og viðhalds á vegakerfinu lækkar um 112 m.kr. frá gildandi fjárlögum. Framlagið nemur um 17,6 ma.kr. en stefnt er að því að ríflega 8 ma.kr. af henni fari til viðhalds vega, en mörg brýn viðhaldsverkefni bíða. Af framlagi til stofnframkvæmda er um 66% þegar bundin á grundvelli verksamninga og ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að veita viðbótarfé, 1,2 ma.kr, til vegaframkvæmda á árinu 2017. Á grundvelli þeirrar ákvörðunar er unnt að bjóða út eftirfarandi verk: Hringvegur/Hornafjarðarfljót, Hringvegur/Berufjarðarbotn, Vestfjarðarvegur/Gufudalssveit, Uxahryggjavegur, Kjósarskarð, Dettifossvegur og Snæfellsnesvegur/Skógarströnd.

„Mjög brýnt er að auka umferðaröryggi vegfarenda og finna leiðir til lausnar á þeim umferðarvanda sem er á Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar kallar eftir breyttum áherslum hjá núverandi ríkisstjórn og hvetur ráðherra samgöngumála og Alþingi til að taka fyrirliggjandi forgangsröðun til endurskoðunar og tryggja nauðsynlegt fjármagn til þessara verkefna í fjárlögum 2018 og næstu ára.“

Í þingsályktun um samgönguáætlun 2015-2018 er ekki gert ráð fyrir neinu fé til endurbóta á Reykjanesbraut í Hafnarfirði fyrir utan það að gert er ráð fyrir 1 milljarði kr. af 6,5 milljarða heildarkostnaði við tvöföldun  á 9 km kafla Reykjanesbrautar sunnan Hafnarfjarðar. Átti það að koma til framkvæmda í ár en er ekki á framkvæmdaáætlun þar sem tæpa 10 milljarða vantaði upp á að framlag fjárlaga ársins dygði til að uppfylla vegaáætlun.

Hins vegar var framkvæmdum við mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar flýtt og voru settar 800 milljónir kr. í þá framkvæmd í ár.

Kallað hefur verið eftir endurbótum á gatnamótum Reykjanesbrautar við Fjarðarhraun og einnig við Lækjargötu en þar hafnaði bæjarstjórn mislægum gatnamótum árið 2003 þegar samkomulag var gert við Vegagerðina um lagfæringu frá Hamarskotslæk og að Hvammabraut auk þess að yfirfarin yrði hönnun vegakaflans frá Álftanesvegi suður fyrir Lækjargötu.

Áætlun Vegagerðrinnar um tvöföldun Reykjanesbrautar og gerð mislægra gatnamóta við Lækjargötu leit svona út í matsáætlun árið 2002.

Úr matsáætlun 2002

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here