Byggingarreglugerðin á nýjum vef

Leiðbeiningar með reglugerðinni einnig aðgengilegar

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur opnað nýjan vef þar sem hægt er að nálgast byggingarreglugerð á rafrænan hátt.

Þar er nú hægt að fletta upp á einfaldan hátt í þeim reglum sem gilda um framkvæmdir, leyfi, hönnunargögn og úttektir, svo fátt eitt sé nefnt. Áður var reglugerðina aðeins að finna samsetta í PDF skjali á vef HMS.

Vefslóðin er byggingarreglugerd.is og er þar hægt að leita eftir orðum í reglugerðinni með öflugri leitarvél og finna má viðauka auk þeirra leiðbeininga sem eru til umsagnar efst á síðunni.

Þar er einnig hægt að nálgast reglugerðina í pdf-formi. Hægt er að skoða allar breytingar sem gerðar hafa verið á byggingarreglugerðinni síðan hún tók fyrst gildi og fylgja leiðbeiningar með þar sem finna má nánari skýringar, túlkun eða tæknilegar útfærslur.

Hér  er hægt að nálgast byggingarreglugerðina í PDF.

Byggingarreglugerðin

Fyrstu byggingarlögin sem náðu til alls landsins tóku gildi í byrjun árs 1979 en áður hafði hvert sveitarfélag sett reglur fyrir sitt umdæmi um tæknilega gerð mannvirkja og framkvæmd byggingareftirlits. Síðar sama ár tók fyrsta byggingarreglugerðin gildi. Áfram höfðu sveitarfélögin heimild til að setja staðbundnar byggingarsamþykktir. Miðlæg stýring málaflokksins á þessum árum var lítil. Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins gegndi lengi mikilvægu hlutverki með því að framkvæma rannsóknir á sviði byggingarmála og gefa út leiðbeiningar um ýmis tæknileg málefni, en mikið dró úr þeirri starfsemi þegar hún varð hluti af Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Það var ekki fyrr en með setningu mannvirkjalaga árið 2011 sem regluverk byggingarmála varð að fullu samræmt á öllu landinu og það varð yfirlýst markmið löggjafans að samræma stjórnsýslu byggingareftirlits. Eitt af meginmarkmiðum með stofnun Mannvirkjastofnunar á sínum tíma var að vinna að þessari samræmingu og gegna leiðbeiningarhlutverki gagnvart byggingarfulltrúum og fagaðilum. Um áramótin 2019-2020 sameinuðust Mannvirkjastofnun og Íbúðalánasjóður undir nafni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Ummæli

Ummæli